Bílaprófun í hundana!

http://www.fib.is/myndir/PitbullTerrier.jpg
Pitbull Terrier.

Í síðustu viku birtist í danska dagblaðinu Berlingske Tidende frásögn af reynsluakstri á sportlegri útgáfu af Opel Corsa. Með greininni var birt mynd þar sem sást bæði bíllinn sjáflur en einnig hundur. Í myndatextannum sagði eitthvað á þá leið að hið lágfætta vöðvabúnt minnti á bardagahundinn illskeytta - pittbull terrier.

Þessi orð leystu úr læðingi mikið flóð af tölvupóstum og símtölum til blaðsins frá mis æstu fólki. Sumt var móðgað fyrir hönd hunda að vera settir í samhengi við bíl. Einnig bárust skeyti frá hundaáhugafólki sem var æst yfir því að ljótt væri af blaðinu að birta mynd af bannaðri hundategund. Loks urðu eigendur franskra bolabíta, sem munu vera hinar ljúfust skepnur og barnavinir mestu, stórmóðgaðir fyrir hönd hunda sinna að vera ruglað saman við óargadýr sem sé bönnuð hundategund í Danmörku.

Nú hefur blaðið birt leiðréttingu. Hún er á þá leið að hundurinn á myndinni sé einmitt ekki margnefndur pitbull terrier heldur franskur bolabítur og eru lesendur vinsamlegast beðnir að vera ekki með hundshaus yfir því.  Blaðið lofar því loks að bólusetja framvegis síður sínar til að draga úr hættu á nýju hundaæði á síðum blaðsins.