Bílar Norðmanna hafa aldrei verið eldri

http://www.fib.is/myndir/Bilhrae.jpg

Meðalaldur þeirra bíla í Noregi sem enda líf sitt í málmpressunni eða –tætaranum er nú 19 ár og hefur aldrei áður verið jafn hár. Á síðasta ári var samtals 105.324 bílum skilað inn til eyðingar gegn greiðslu skilagjalds. Frá þessu er greint í Aftenposten um helgina.

Því norðar sem dregur í landið verða bílarnir eldri. Á Finnmörku er meðalaldur þeirra bíla sem skilað er inn til eyðingar 20,3 ár. Enn eldri eru bílarnir á Svalbarða því þar eru bílarnir að meðaltali 21,5 ára gamlir þegar eigendur þeirra gefast upp á þeim. Lægstur er meðalaldur bílanna í Osló, 17,9 ára.

Þessi tölfræði nær til bílategunda með 5000 skráða bíla eða fleiri á norsku bifreiðaskránni í árslok 2006. Af þeim tegundum sem þar er að finna virðist Chevrolet vera endingarbesta tegundin því að meðalaldur Chevroletbíla til eyðingar var 24 ár. Meðalaldur eyddra Mercedes Benz bíla, sem er miklu algengari tegund í Noregi en Chevrolet, var 21,9 ár. Hér að neðan sést meðalaldur þeirra bíla eftir tegundum, sem skilað var inn til eyðingar í Noregi árið 2006.

Audi 19,4
BMW 19,6
Chevrolet 24,0
Chrysler 15,6
Citroën 16,1
Daihatsu 17,3
Fiat 17,2
Ford 18,9
Honda 18,6
Hyundai 10,6
Kia 9,2
Lada 17,6
Mazda 19,4
Mercedes-Benz 21,9
Mitsubishi 17,7
Nissan 18,4
Opel 18,9
Peugeot 16,7
Renault 15,6
Saab 20,4
Seat 11,5
Skoda 12,0
Subaru 18,6
Suzuki 15,0
Toyota 19,2
Volkswagen 19,6
Volvo 21,4
Aðrar tegundir 21,3