Bílar opnaðir með „pólskum lyklum“

http://www.fib.is/myndir/Innbrot.jpg


Þjófaflokkur sem menn grunar að sé frá A.Evrópu hefur undanfarnar vikur verið mjög athafnasamur um vestari hluta Evrópu við það að brjótast inn í þýska bíla og hreinsa úr þeim GPS leiðsögubúnað og hljómtæki. Þessi þjófaflokkur virðist sérhæfa sig í Volkswagen og Audi bílum. í fyrri hluta þessa mánaðar urðu fjöldamargir eigendur nýlegra bíla af ofannefndum bílgerðum Í Søllerød á N. Sjálandi í Danmörku þess varir að  búið var að hreinsa hljóm- og GPS tæki úr bílum þeirra. Engin merki voru þó um að brotist hefði verið inn í bílinn. Allar rúður voru heilar og greinilegt að bílarnir höfðu verið opnaðir með lykli eða samlæsingarnar einhvernveginn „gabbaðar.“

Lögreglan í Lyngby segir við danska fjölmiðla að þjófarnir noti einhverskonar lykla og hugsanlegt sé að þessum „lyklum“ sé stungið samtímis í læsingar beggja framdyra. Lögregluvarðstjóri sem rætt var við kallaði þessa „lykla“ pólska lykla.

Fjölmiðlafulltrúi hins danska umboðsfyrirtækis VW/Audi staðfestir við danska fjölmiðla að slíkur „pólskur lykill“ að bílum fyrirfinnist. Hann sé rafræn fjarstýring sem forrituð sé þannig að hún lesi fjarstýrðar læsingar flestra bíla sömu tegundar. Læsingarnar í mörgum nýjustu bílum virka þannig að sé hnappi á fjarstýringunni haldið niðri smá stund, skrúfast hliðarrúður niður. Þetta er til þess að lofta út hitanum í bílnum á sólríkum degi áður en sest er inn í hann. Líklegt þykir að þetta kerfi sé „blekkt.“