Bílar sem ganga fyrir vatni?

http://www.fib.is/myndir/Jerry-Woodall-j05.jpg
Jerry Woodall prófessor við Purdue háskóla í Indiana.

Kúlur eða töflur úr blöndu áls og gallium hafa þau áhrif að ef vatn kemst í snertingu við þær, skilst vetnið úr vatninu. Bandarískur vísindamaður við Purdue-háskóla í Indiana sem unnið hefur að tilraunum á þessu telur hugsanlegt að hér sé komin lausnin sem leitað hefur verið að í sambandi við hreina orku fyrir farartæki. Automotive News, CNN og fleiri fjölmiðlar í USA greina frá þessu.

Horft hefur verið lengi til vetnisins sem hinnar hreinu orku, ekki síst til þess að nota á bíla og farartæki. Vandinn hefur bara verið sá að ná í vetnið verður að kljúfa það út úr vatni og til þess þarf orku og þá hverskonar? Það er augljóslega lítið vit í því að brenna kolum eða olíu til þess að framleiða vetni sem knýr áfram bíla. Bæði er orkutapið mjög mikið við þessar tilfæringar auk þess sem öfluga geyma þarf fyrir vetnið bæði í birgðastöðvum og í bílunum sjálfum. Vetnisbílar eru því ekkert einfalt mál. Enn hefur nefnilega vantað góða og hagkvæma aðferð við að framleiða vetnið og geyma það um borð í bílunum.

Jerry Woodall er verkfræðiprófessor við Purdue háskóla í Indiana. Hann hefur fundið upp þessa virkni álkúlanna og stjórnað tilraunum með þær. Hann segir að þær lofi góðu og sýni að hægt sé að framleiða nákvæmlega það magn af vetni sem þarf til að keyra bílinn, þegar þess þarf. Þessvegna þurfi enga rándýra og fyrirferðarmikla vetnisgeyma og birgðastöðvar fyrir vetni. Aðeins þarf lokað rými fyrir kúlurnar, kerfi til að vökva þær og svo bara nóg vatn á bensíntankinn.

Í frétt sem vísindamennirnir við Purdue háskóla hafa sent frá sér segir að vetnið megi nota sem eldsneyti á venjulega bensínhreyfla og komi það þar í stað hefðbundinnar loft- og bensínblöndu. Gerðar hafi verið tilraunir með ýmsar smávélar eins og í t.d. garðsláttuvélum og keðjusögum og slíkum verkfærum en ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að setja þennan búnað í bíla. Í þeim megi láta vetnið hvort heldur knýja venjulega brunahreyfla eða efnarafala.

Jay Gore er yfirmaður orkurannsókna við Purdue háskóla. Hann segir í samtali við Automotive News að hugmyndin að baki því að nota ál og gallíum sem hvata til að skilja vetnið frá súrefninu í vatni sé sáraeinföld. Álið eitt og sér virki ekki sem hvati á þennan hátt því að hreint ál myndi yfirborðshimnu sem hindrar þessi efnahvörf. Þessi himna myndist hins vegar ekki ef gallíumi er blandað í álið. „ Þetta er sáraeinfalt, en það hefur bara engum dottið í hug að gera þetta fyrr en nú,“ segir Gore.

Uppfinningamaðurinn Jerry Woodall segir að miðað við verðlag á málmum og orku eins og það er nú, sé kostnaður við framleiðslu á vetni sem að orkumagni er jafngilt galloni af bensíni sá sami og verðið á bensíngalloninu.
Sjá einnig frétt um þetta á CNN.