Bílar ultu

Útvarpsstöðin Bylgjan og RÚV greindu í morgun frá bílveltum í Vatnsskarði og á Holtavörðuheiði í gærkvöldi. Þegar slysin urðu, gekk á með slydduéljum og varð flughált á vegunum af þeim sökum. Þá munu hafa orðið óhöpp og útafkeyrslur víðar á hátt liggjandi vegum, m.a. á Hellisheiði.

Enginn mun hafa slasast alvarlega í þessum óhöppum, en fimm manns úr tveimur bílveltum á Vatnsskarði voru fluttir á sjúkrahúsið á Blönduósi til aðhlynningar.

Búast má við hálku áfram í dag, einkum á norðvestanverðu landinu og rétt er því að biðja þá sem verða á ferðinni í dag að hafa á því gát. Lang flestir bílar eru enn á sumarhjólbörðum enda stendur hið lögbundna almenna nagladekkjabann enn, eða til 31. október. Aðeins er leyfilegt að aka á negldum vetrarhjólbörðum á tímabilinu 1. nóvember til 15. apríl, þó með þeirri undantekningu eða fyrirvara að aðstæður krefjist.  Þeir sem erindi eiga um fjallvegi þar sem von er á vetrarfæri, eru því ekki að brjóta af sé þótt þeir skelli negldum vetrardekkjum undir bíla sína.