Bílasala á Íslandi jókst um 29% fyrstu fjóra mánuði ársins

http://www.fib.is/myndir/Umferd.jpg

Ísland er í öðru sæti, næst á eftir Lettlandi, yfir þau Evrópulönd þar sem bílasala jókst mest fyrstu fjóra mánuði ársins miðað við sama tímabil síðasta árs. Aukningin í Lettlandi var 55%, á Íslandi varð hún 29%, í Litháen 25% og í Belgíu 17%. En þótt vel hafi árað í þessum löndum hjá bílgreininni þá gekk ekki jafn vel allstaðar annarsstaðar í álfunni. Mestur varð samdráttur í Póllandi, 8%. Í aprílmánuði sl. seldust alls 1.266.242 bílar í Evrópu og er það 7,3% minna en í apríl í fyrra. Það merki sem mest jók við sig er Lexus og það merki sem mest hefur endurheimt tapaða markaðshlutdeild er Fiat.

Í Þýskalandi jókst bílasala fyrstu fjóra mánuði þessa árs um 1,2% miðað við sama tímabil í fyrra. Í Frakklandi varð samdráttur um 1,8% og í Bretlandi um 5,5%.
Lexus er hástökkvarinn meðal bílamerkja í prósentum talið því að salan jókst á tímabilinu um 103% miðað við í fyrra. Næst kemur Suzuki með 25% aukningu og munar þar miklu um hinn nýja Suzuki Swift. Bandarísku bílarnir frá GM auka við sig um 25% (aðallega Cadillac og Chevrolet) en kannski kemur Fiat mest á óvart því að salan á Fiat bílum jókst um 22,1% miðað við jan.-apríl á síðasta ári. Þar munar mestu um hinn nýja Grande Punto. Saab er í fimmta sætinu með 21,3 aukningu, Chrysler með 17% og Land Rover með 16% aukningu.

Af einstökum gerðum innan bíltegunda má geta þess að ódýri smábíllinn Renault/Dacia Logan frá Rúmeníu er sú bílgerð sem slegið hefur ótvírætt í gegn. Af honum steig salan úr 3.571 bíl á fjórum fyrstu mánuðum ársins 2005 í 14.529 í ár.

Samdráttur varð hjá Volvo um 8,9% og móðurfyrirtækið, sem er Ford, seldi 3% færri bíla á þessu ári en á sama tímabili í fyrra. Lítilsháttar skár gekk hjá GM. Þar varð samdrátturinn 2,8%.  Mesta tapið varð hjá hinu gjaldþrota MG-Rover upp á 86,2%. Næst verst gekk hjá Smart með 24,8% tap, þá Nissan með 15,4%, Mini með 12,9% og Renault með 12,3%.
Volkswagen samstæðan bætti hins vegar hlut sinn um 8,4%. Innan hennar gekk einna síst hjá Audi sem kom út á sléttu.  Önnur bílaframleiðslufyrirtæki sem bættu hlut sinn eru DaimlerChrysler samstæðan með 1,4% bata. Innan hennar var Chrysler með 16% bata, Mercedes með 5% bata en tapið á Smart dregur síðan samstæðuna í heild niður með sínu 24,8% tapi.