Bílasala að rétta úr kútnum

Nýskráningum í fólksbílum hefur á síðustu vikum verið að fara upp á við. Enn er þó töluvert í land að bílasalan verði með svipuðum hætti og á sama tíma á síðasta ári. Fjöldi nýskráninga eru orðnar 2.171 en voru á sama tíma í fyrra 4.296 samkvæmt tölum frá Bílgreinasambandinu.

Sala á bílum til þessa í apríl mánuði hefur verið nokkuð lífleg og er hún örlítið minni en í apríl í fyrra. Það sem af er apríl eru nýskráningar orðnar 785 en voru á sama tíma í fyrra alls 796.

Nýskráningar þegar hátt í fjórir mánuðir eru liðnir af árinu eru 49,5% minni miðað við sama tímabil í fyrra. Bílar til almennra notkunar er 54% og til ökutækjaleiga tæp 45%.

Salan er mest í dísilbílum það sem af er árinu. Hlutfall þeirra er 27,5%, alls 596 bifreiðar. Rafmagnsbílar koma í öðru sæti með 22,6% hlutfall, alls 490 bifreiðar. Tengiltvinnbílar koma í þriðja sæti með 22% hlutfall og alls 477 bifreiðar. Hybrid-bílar eru með 17,9% hlutfall og bensín-bílar 10% hlutfall.

Dacia eru söluhæsta bílamerkið en þessi bílategund fer að stórum hluta til ökutækjaleiga. Það sem af er árinu eru nýskráningar í Dacia 300 talsins sem gerir um 13,8% hlutfall á markaðnum. Toyota kemur næst með 272 bifreiðar sem er um 12,5% hlutfall. Hyundai er í þriðja sæti með 220 nýskráningar. Kia er ekki langt á eftir með 208 nýskráningar í fjórða sæti. Aðrar bílategundir eru þar nokkuð langt á eftir.