Bílasala í Þýskalandi minnkar

11% samdráttur í nýskráningum bíla varð í september í mesta bílalandi Evrópu; Þýskalandi. Verst kom samdrátturinn niður hjá Opel. Samdráttur varð einnig hjá Volkswagen. Sama er hins vegar ekki að segja um Kia, Hyundai og Skoda, þar varð söluaukning.

Meðan bílasala hefur verið að dragast saman á flestum helstu markaðssvæðum Evrópu í fjármálakreppunni sem herjar á álfuna, þá hefur lítið breyst í Þýskalandi – þar til nú. Að vísu sögðu fjölmiðlar frá því á haustdögum að bílasalan í Þýskalandi væri í raun bóla þannig til komin að framleiðendur og söluaðilar nýrra bíla spiluðu á tölfræðina með því að nýskrá bíla í stórum stíl sem síðan stæðu langtímum saman uns þeir seldust með gríðarlegum afsláttum og afföllum. Jafnframt hafi stórir flotar nýrra bíla verið fluttir til Þýskalands frá steindauðum sölusvæðum eins og Spáni og Ítalíu og seldir þar með jafnvel enn meiri afföllum. Miðað við nýskráningartölur septembermánuðar virðist hafa verið talsvert hæft í þessu. Og nú er eins og loftið sé farið að leka úr blöðrunni.

Samdrátturinn í sept. í Þýskalandi hefur komið verst við Opel en þar varð hann 26 prósent. Hjá Ford varð hann 22,5 prósent og 20 prósent hjá Volkswagen, 11 prósent hjá Mercedes og 5,9 prósent hjá Audi. Á hinn bóginn fjölgaði nýskráningum hjá Hyundai um 19 prósent, hjá Kia um tæp 15 prósent og hjá Skoda um 11 prósent. Eini þýski bílaframleiðandinn sem bætti sig í september sl. í heimalandinu er BMW/Mini. Hjá þeim fjölgaði nýskráningum um 9,3 prósent.

Evvrópska fjármálakreppan hefur haft mjög slæm áhrif á smábílasöluna á Spáni, Ítalíu og í Frakklandi og framleiðendurnir Fiat, Peugeot, Citroën, Ford og Renault  orðið illa úti. Og í sl. sept versnaði ástandið enn á Spáni, ekki síst vegna nýrra VSK-reglna og það verulega, eða 37 prósent og var það sannarlega ekki gott fyrir. Á Ítalíu fækkaði nýskráningum í sept um 25,7 prósent og í Frakklandi um 18 prósent.