Bílaskattar í Danmörku lækka

http://www.fib.is/myndir/Dannebrog.jpg

Danmörk hefur lengi verið meðal þeirra ríkja sem skattleggja bíla einna mest. Nú er að verða breyting á bílaskattastefnu stjórnvalda því að samstjórn Venstre (svarar til Framsóknarflokksins hér) og Konservative (svarar til Sjálfstæðisflokks hér) leggur senn fram lagafrumvarp um lægri skatta og gjöld á bíla. Bæði Jafnaðarmannaflokkurinn og Róttæki flokkurinn styðja hugmyndina að baki frumvarpi ríkisstjórnarflokkana.

Lækkunin mun fyrst og fremst ná til bíla sem eru umhverfismildir og því umhverfismildari þeir eru, þeim mun meir lækka gjöldin. Talsmenn stjórnarflokkanna í skattamálum segja við Motormagasinet að gjöldin muni ekki lækka af jeppum né öðrum stórum fjórhjóladrifnum bílum en af nánast öllum öðrum og sérstaklega þó þeim sem minnstu eldsneyti eyða og minnst gefa frá sér af CO2. Tilgangurinn sé sá að hvetja Dani til að snúa sér meir að „grænni“ og jafnframt öruggari bílum.