Bílaskattar yfir 40 milljarða króna á þessu ári

Stóraukinn bílainnflutningur á þessu ári stóreykur skatttekjur ríkisins af bílum.  Mikil hækkun heimsmarkaðsverðs á eldsneyti bætir einnig mörgum krónum í ríkissjóð. 

Eins og staðan er um þessar mundir fara skattar ríkisins af bílum og umferð yfir 40 milljarða króna markið á þessu ári.  Tekjur vegna notkunar eru ríflega helmingur og af bifreiðakaupum tæplega helmingur heildartekna ríkissjóðs af bíleigendum.  Um er að ræða gríðarlega tekjuaukningu á milli ára þar sem áætla má að tekjurnar hafi verið rúmlega 31 milljarður árið 2004. 

Í ár verður varið um 13 milljörðum króna til vegagerðar og ljóst að tekjur ríkisins af bifreiðum eru margfalt meiri en útgjöldin.  Þrátt fyrir þessa staðreynd hafa stjórnvöld ekki tekið vel í það að lækka ofurskatta á eldsneyti líkt og FÍB og margir aðrir hafa farið fram á.