Bílastæðagjöld á gjaldsvæði 1 í miðborg Reykjavíkur hækka um 40%
Reykjavíkurborg hyggst hækka bílastæðagjöld á gjaldsvæði 1 um 40% í miðborg Reykjavíkur. Þá verður tími gjaldtöku lengdur frá 18 til 21 á virkum dögum og laugardögum. Eins verður tekin upp gjaldskylda á sunnudögum á gjaldsvæðum 1 og 2.
Sem stendur hljóðar gjaldskráin á svæði 1 upp á 430 krónur fyrir hverja klukkustund en gjaldið á að hækka í 600 krónur á klukkustund. Þá hefur gjaldskylda verið frá 9-18 á virkum dögum en frá 10-16 á laugardögum. Ekki hefur verið rukkað fyrir bílastæði á sunnudögum til þessa.
Tillagan var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði í gær og staðfest í flýtimeðferð borgarráði í dag.
Meðal breytinga sem taka í gildi eru
Að gjald á gjaldsvæði P1 verði 600 kr/klst og hámarkstími verði 3 klst.
Að gjaldskyldutími á gjaldsvæðum P1 og P2 verði til klukkan níu á kvöldin, virka daga.
Að gjaldskyldutími á gjaldsvæðum P1 og P2 verði til klukkan níu á kvöldin, á laugardögum.
Að gjaldskylda verði á gjaldsvæðum P1 og P2 verði milli klukkan 10 á morgnanna og níu á kvöldin, á sunnudögum.
Að ekki verði gjaldskylda á gjaldsvæði P3 á laugardögum.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, segir í samtali við visir.is að um sé að ræða breytingu sem sé hluti af samþykktu verklagi. Þá bendir hún á að allir flokkar hafi aðkomu að borgarráði og umhverfis- og skipulagsráði, því sé ekki verið að takmarka aðkomu neins að málinu.
Ákvörðunin byggist á verklagi sem byggt er á bíla- og hjólastæðastefnu Reykjavíkur. Sú stefnumótun hafi farið í gegnum samráðsferli. „Þessi breyting er til þess að stýra notkun á bílastæðum út frá gögnum. Það er talið hversu mikið hvert svæði er notað og hér er verið að gera þessar aðlaganir, breyta gjaldtíma og hækka hóflega á ákveðnu svæði,“ segir Dóra.
Sigríður Á. Andersen lögmaður, fyrrverandi dómsmálaráðherra, gagnrýnir hækkun bílastæðagjalda harðlega á facebook síðu sinni og telur hana til marks um skeytingarleysi í stjórnsýslu borgarinnar.
Sigríður segir tilgangurinn einfaldlega sýna að sækja eigi tekjur til bæði þeirra sem halda uppi vinnustöðum í miðborginni, sem Sigríður telur í sjálfu sér ótrúleg afstaða borgaryfirvalda til atvinnulífs í miðborginni og svo til íbúa.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir í samtali við Morgunblaðið hækkunina ótrúlega þegar tekið sé mið af verðbólgu.
„Allir stjórnmálaflokkar eru sammála um það að aðalviðfangsefnið sé að ná niður verðbólgunni. En Reykjavíkurborg leyfir sér á sama tíma að fara á sama tíma í 40% hækkun á þjónustugjöldum. Bílastæði eru ekkert annað en þjónustugjöld sem þúsundir nota á hverjum degi. Við höfum rætt þessi gjaldskrármál í allan vetur og hvarvetna höfum við fengið þau skilaboð frá ríkisstjórn og öðrum að ef hækkun er nauðsynleg að slík hækkun verði ekki meiri en verðbólgan,“ segir Kjartan.
English
Gerast Félagi
Eldsneytisvaktin

