Bílasýningin í Detroit að hefjast

http://www.fib.is/myndir/Detroit2009.jpg
Bílar undir feldi á sýningarsvæðinu í Detroit.

Bílasýningin í Detroit í Bandaríkjunum verður opnuð fyrir fjölmiðla næstkomandi sunnudag. Sýningin verður opin almenningi dagana 17.-25. janúar.

Eftir því sem næst verður komist verða um 50 nýjungar sem nokkrum tíðindum sæta meðal bílafólks. Meðal þeirra er nýr Toyota Prius sem nú er orðinn tengiltvinnbíll. Þá sýnir Honda nýjan tengiltvinnbíl, Honda Insight, sem er í svipuðum stærðarflokki og Prius, en mun verða nokkru ódýrari eftir því sem fréttir herma. 

Sýningin í Detroit er haldin í skugga djúprar kreppu í bandaríska bílaiðnaðinum og tvísýnnar framtíðar hinna þriggja stóru; GM, Fords og Chryslers. Engu að síður verða nýjungar frá þeim á sýningunni eins og t.d. Cadillac SRX sem einnig er væntanlegur undir nafninu Saab 9-4X.

Af öðrum nýjungum má nefna nýja gerð E-Benzans, nýjan Volvo S60 og Chevrolet Equinox jeppling.