Bílasýningin í Genf

http://www.fib.is/myndir/Smart_cdi.jpg
Smart Fortwo cdi - sá umhverfismildasti í dag.

 

77. bílasýningin í Genf verður opnuð á fimmtudagin, þann 8. mars og stendur til þess 18. Sýningin er að stórum hluta helguð eldsneytissparnaði, sparneytnum bílum og nýjungum sem leiða til sparneytnari bíla. Þá verða talsvert áberandi á sýningunni bílar sem nota óhefðbundnari orkugjafa eins og t.d. etanól, rafmagn og gas - bæði jarðgas og metangas.

Á sýningunni verða frumsýndir margir nýir sparneytnir bílar og í fréttinni hér á undan hefur verið minnst á hinn nýja smábíl Mazda 2. Auk hans mun m.a. gefa að líta nýjan og mikið breyttan Renault Twingo og nýja Fiat 500 smábílinn sem ber sterkt svipmót með hinum stórfræga og merka fyrirrennara sem bar sama nafn og tegundarnúmer og ekki minni menn en Ómar okkar Ragnarsson og Michael Schumacher hafa í miklum metum. Þá verður vitanlega sýndur hinn nýi Smart Fortwo dísilbíll sem samkvæmt Evrópumælingu er sparneytnasti og umhverfismildasti bíll álfunnar í dag. Hann eyðir í blönduðum akstri 3,3 lítrum á hundraðið og blæs frá sér 88 grömmum af CO2 á hvern kílómetra.

Bæði Twingóinn og Fiat 500 bíllinn eru hvor á sinn hátt merkar nýjungar og hið sama má auðvitað segja um marga fleiri. Með hækkandi eldsneytisverði og vitund almennings um nauðsyn þess að fara sparlega með orkulindir jarðar og halda CO2 útblæstri í skefjum hefur eftirspurn eftir smábílum verið að aukast. Jafnframt hafa framleiðendur keppst við að gera smábílana skemmtilegri í akstri og notadrýgri og óhætt er að segja að það hafi tekist svo vel að aldrei áður hafi fyrirfundist jafn mikið úrval af framúrskarandi akstursbílum í smábílaflokki.