Bílasýningin í Genf búin

Bílasýningunni í Genf er nú lokið, en þessi sýning er oftast talin vera sú evrópska bílasýning þar sem flestar nýjungarnar eru frumsýndar. Merkustu nýjungarnar sem nú birtust og eiga eftir að skipta máli tengdust margar hverjar bættu öryggi en þar fyrir utan var sýningin mjög lituð af rándýrum og mjög hraðskreiðum ofurbílum eins og reyndar mátti búast við í kjölfar stórlega lækkaðs eldsneytisverðs í heiminum (sem reyndar hækkar nú nokkuð ört).

En undir merkjum öryggisins var sjálfvirk nauðhemlun bíla þegar hindrun birtist framundan, sá tæknibúnaður sem nú er að halda innreið sína í alla nýja bíla. Ekki bara þá stóru og dýru, heldur smábíla líka. Dæmi um uppfærða smábíla og venjulega fjölskyldubíla sem sýndir voru með búnaðinum sem almennum staðalbúnaði, eru Peugeot 208, Toyota Auris, Toyota Avensis, Honda Jazz, Honda HR-V, Hyundai Tucson, Mazda CX-3 og reyndar margir fleiri. Þessi mikilvægi öryggisbúnaður er þannig orðinn sjálfsagður í þeim bílum sem rúmast innan fjárhagslegs bolmagns venjulegs launafólks. Um leið og bílum með þessum búnaði fjölgar hlutfallslega í umferðinni mun aftanákeyrslum og hverskonar árekstrum og ákeyrslum í þéttbýlisumferðinni fækka að sama skapi. Genfarsýningin 2015 hefur þannig markað nokkur tímamót.

http://fib.is/myndir/Koenigsegg-Regera.jpg

Af öðru sem mikla athugli fékk á sýningunni var nýja tryllitækið frá hinum sænska Koenigsegg; Koenigsegg Regera. Þetta er ofursportbíll með tvíorkuvélbúnaði sem samtals er 1.500 hestöfl. Viðbragðstími bílsins úr kyrrstöðu í 400 km á klst. er 20 sekúndur. Og hvað kostar svo gripurinn við verksmiðjudyr framleiðandans? Jú, um 290 milljónir ísl. kr.

http://fib.is/myndir/Bentley-exp-speed-6.jpg

Bentley, gamla breska lúxus- og keppnisbílamerkið, sýndi nýjan tveggja sæta sportbíl; Bentley EXP 10 Speed 6. Sá er sagður mikill tímamótabíll í sögu Bentley og sagður eiga að keppa á markaði við Ferrari og Aston Martin þegar (eða ef) hann fer í almenna framleiðslu.

 

 

http://fib.is/myndir/Volvo_V60_Twin.jpg

En af þeim bílum sem nær eru hinum daglega veruleika og þar með nokkru fjær drengjadraumunum um ofurafl og ofurhraða eru Volvo V60 D5 Twin Engine og hinn nýi Skoda Superb. Báðir þessir nýju bílar drógu að sér mikla athygli sýningargesta, ekki síst í hópi fjölmiðlafólks. Sá fyrrnefndi; Volvóinn, er tengiltvinnbíll með dísilrafstöð. Dísilvélin er ekki sérstaklega stór en hún leysir aðra og stærri slíka vél af hólmi og er 163 hö, í stað 220. Flestir munu efalaust telja 163 dísilhestöfl dugi nú fyllilega. En samhliða þessari minni vél er verðið á bílnum lægra en áður. Volvo kynnti bílinn með þessari nýju vél sem einskonar inngang að nýrri seríu ódýrari tengiltvinnbíla.

http://fib.is/myndir/Skoda-Superb-2015.jpg

En af nýjum og ný-uppfærðum tegundum og gerðum bíla á sýningunni í Genf vakti hin nýja kynslóð Skoda Superb einna mestu athyglina. Við hönnun bílsins hafa tékkarnir hjá Skoda haft frjálsari hendur en áður með að gefa bílnum ýmis eigin sérkenni. Bíllinn er byggður á nýrri svokallaðri MQB grunnplötu og sagður vera bæði stærri, rúmbetri en jafnframt sparneytnari og öruggari en nokkru sinni áður.