Bíll ársins 2016 í Evrópu

Sjö bílar eru komnir í lokaval á bíl ársins í Evrópu 2016. Úrslit verða tilkynnt við opnun bílasýningarinnar í Genf eftir tíu daga.

Alls voru 34 bílar tilnefndir upphaflega en valnefd evrópskra bílablaðamanna hefur grisjað upphaflega fjöldann og eftir standa bílarnir sjö. Í valnefndinni sitja 58 bílablaðamenn frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, Rússlandi og Tyrklandi. Bílarnir sjö í úrslitum eru Audi A4,  BMW 7-línan,  Jaguar XE, Mazda MX-5,  Opel Astra,  Skoda Superb og Volvo XC90. Allir sjö úrslitabílarnir hafa verið prófaðir og þeim reynsluekið í öllum þeim útfærslum sem þeir fást í. Þær prófanir fóru fram á lokuðu aksturssvæði rétt utan við París í Frakklandi og nutu blaðamennirnir aðstoðar fjölmargra bílasérfræðinga frá framleiðendum bílanna við það verk.

Hver dómnefndarmanna er þessa stundina að vega og meta niðurstöður fyrir sig og gefa bílunum stig. Hver þeirra hefur 25 stig til að miðla milli úrslitabílanna. Hæst má gefa einum bíl 10 stig og dómnefndarmenn verða auk þess að miðla stigum sínum til minnst fimm bíla. Síðan verða stigin reiknuð og sá bíll sem flest stig hlýtur verður útnefndur bíll ársins í Evrópu 2016 á bílasýningunni  í Genf á hlaupársdaginn, mánudaginn 29. febrúar nk. kl. 15.00.