Bíll ársins á íslandi 2012

Volkswagen Passat í metanútfærslu hefur verið valinn Bíll ársins 2012 af Bandalagi íslenskra bílablaðamanna (BÍBB) sem stendur að valinu. Volkswagen Passat fær því verðlaunagripinn Stálstýrið 2012. Tilkynnt var um valið við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum Blaðamannafélags Íslands sl. föstudagskvöld.

Alls komust níu bílar í úrslit í þremur flokkum og var skiptingin í sambærilegu vali í Evrópu höfð sem lauslegt viðmið. Passat sigraði Í flokki hybrid- og metanbíla, Lexus CT 200 varð í öðru sæti og Toyota Auris í því þriðja. Í flokki minni fólksbíla varð Audi A1 hlutskarpastur, Ford Focus varð í öðru sæti en Ford Fiesta í því þriðja. Í flokki stærri fólksbíla sigraði Volvo V60, í öðru sæti varð BMW 520 og Kia Sportage í því þriðja. Volkswagen Passat fékk flest stig allra bílanna og fær sæmdarheitið Bíll ársins 2012.

Bílar sem gjaldgengir voru á Bíl ársins 2012 eru bílar sem hafa komið á markað hér á landi frá því í ágúst 2010. Dómnefnd tók tillit til aksturseiginleika, afkastagetu, eldsneytisnotkunar, visthæfi, öryggisbúnaðar, útlits og hönnunar bílanna og endursöluvirðis svo nokkuð sé nefnt. Frumherji og Kvartmíluklúbburinn styrktu val á bíl ársins 2012.

Bíll ársins, VW Passat EcoFuel er verksmiðjubyggður metanbíll. Hér á landi er metan innlendur orkugjafi og því skattfrjálst bifreiðaeldsneyti samkvæmt tímabundnum lögum sem alþingi hefur undanfarin ár framlengt um eitt ár í senn. En sjálfur bíllinn er ennfremur undanþeginn vörugjöldum og því verulega ódýrari en  sami bíll sem fluttur er inn án metanbúnaðar.

Passat er þar fyrir utan afar rúmgóður bíll, þægilegur í akstri og allri notkun og til hans vandað í hvívetna. Hann er vel byggður og vel búinn með það fyrir augum að hann veiti fólkinu sem í honum er sem besta vernd ef slys verður. VW Passat er þannig að flestu leyti vel að titlinum kominn þótt vissulega megi segja svipaða sögu um alla þá bíla sem í úrslit komust að þessu sinni.

 Það er einkum tvennt sem  einkennir nýja bíla dagsins í dag almennt séð. Það er meiri sparneytni en nokkru sinni fyrr og minni mengiun sömuleiðis. Jafnframt eru þeir miklu öruggari en bílar hafa áður verið. Allir bílarnir sem í úrslit komust í baráttunni um titilinn Bíll ársins á Íslandi 2012 eru þannig fimm stjörnu bílar í árekstursprófum EuroNCAP.

Margt bendir til að Olíuöldin sem staðið hefur rúm 150 ár sé að síga á seinni hlutann. Auðvinnanlegar olíubirgðir heimsins fara minnkandi og verðið hækkar óhjákvæmilega. Seint verður bílaheimurinn sakaður um að hafa ekki brugðist við þessu því að miðað við bíla fyrir tveimur áratugum þá eru sambærilegir nútímabílar helmingi sparneytnari og mengun frá þeim innan við einn tíundi þess sem var.

Jafnframt því að gera bílana sparneytnari stendur yfir stöðug leit og tilraunir með aðra orkugjafa fyrir samgöngur en olíu. Þessi leit er miklu öflugri og markvissari en nokkru sinni fyrr. Þróun rafmagns-, vetnis- og gasbíla er hröð og allt útlit er fyrir að olían og olíuafurðir missi brátt þann sess að vera einasti orkugjafi bifreiða heimsins. Bíll ársins á Íslandi 2012 er á sinn hátt vísbending þessa.

Á þessu sama 20 ára tímabili hafa öryggissjónarmið í okkar heimshluta og óháðar árekstursprófanir kallað á sífellt sterkari og betri bíla. Það hefur skilað þeim árangri að dauðaslysum í umferð fer stöðugt fækkandi og þrátt fyrir margfalda umferð á vegum í Evrópu eru dauðaslys í mörgum löndum svipuð að fjölda eða færri en voru á fyrstu árunum eftir síðari heimsstyrjöld.

Nánari upplýsingar eru á www.billarsins.is.