Bíll ársins í Evrópu 2011

Nú stendur yfir val á bíl ársins í Evrópu. Sjö bílar eru komnir í úrslit og er rafmagnsbíllinn Nissan Leaf þeirra á meðal. Verði hann valinn verður um tímamótaatburð í bílasögunni að ræða. Rafmagnsbíll hefur aldrei áður komið til greina í þessu vali, hvað þá náð jafnt langt og nú. Bíll ársins í Evrópu hefur verið valinn allt frá árinu 1964. Úrslit að þessu sinni verða tilkynnt 29. nóvember nk.

 Þeir sem velja bíl ársins í Evrópu eru 59 bílablaðamenn frá 23 löndum. Þegar dómurinn tók til starfa síðsumars komu 41 bíll til greina en nú eru sem fyrr segir sjö þeirra eftir til að velja í milli. Þessir sjö bílar eru Alfa Romeo Giulietta, Citroën C3/DS3, Dacia Duster, Ford C-Max/Grand C-Max, Nissan Leaf, Opel Meriva og Volvo S/V60. Meðal þeirra sem fallnir eru úr keppni eru nýir bílar sem miklar vonir hafa verið bundnar við, bílar eins og Audi A1 og A7, hinn nýi BMW X3 og Citroën C4.