Bíll stórskemmist í torfærum Hverfisgötunnar

Þann 28. febrúar sl. síðdegis varð Viðar Heimir Jónsson félagsmaður í FÍB fyrir því óhappi að aka ofaní djúpar holur við krappa hraðahindrun á Hverfisgötu móts við Þjóðmenningarhúsið. Viðar ók eftir Hverfisgötunni í átt að Hlemmi þegar bifreið hans tók hastarlega niðri og brotnaði olíupannan undir vélinni og olían flæddi út. Byrjað var að skyggja, votviðri var og skyggni ekki sérlega gott og talsverð umferð bíla um götuna sem og gangandi vegfarenda. Engin leið var því að sjá holurnar og engar merkingar voru við þær né fjölda annarra sem eru á þessum kafla Hverfisgötunnar.

Lögregla kom á staðinn eftir óhappið og gerð var lögregluskýrsla og daginn eftir leitaði Viðar eftir því að fá tjón á bílnum bætt hjá Reykjavíkurborg og tryggingafélagi borgarinnar sem er Sjóvá. Þeirri beiðni hefur tryggingafélagið nú hafnað með þeim rökum að starfsmenn Reykjavíkurborgar hafi ekki vitað af því að aðstæður á tjónstað hafi verið eins og þær voru (og eru enn þegar þetta er ritað). Starfsmenn borgarinnar hafi “.. reynt að fylgjast vel með Hverfisgötunni og hafa verið að setja í holur sem þeir hafa orðið varir við. Einnig hafa verið sett viðvörunarskilti við Lækjargötu og við Smiðjustíg til að fyrirbyggja hugsanlega hættu á tjónum.“

Áður en óhappið varð var Viðar á gangi um miðbæinn en vitjaði síðan bílsins þar sem hann stóð neða á Hverfisgötunni skammt niður af Ingólfsstræti við bækistöð Ríkissaksóknara. Þaðan ók hann áleiðis að Hlemmi og gat því ekki með neinu móti séð hugsanlegt viðvörunarskilti niður á Lækjargötuhorninu ca. 100-150 m aftan við bílinn, né við Smiðjustíginn sem tryggingafélagið segir að hafi verið þar. Í neituninni segir ennfremur að miðað við fyrirliggjandi gögn í þessu máli sé ekki hægt að rekja það tjón sem varð, til gáleysis eða mistaka borgarstarfsmanna eða annarra atvika eða aðstæðna sem RVK verði látin bera skaðabótaábyrgð á.

Ástandið á gatnakerfi Reykjavíkur er afleitt um þessar mundir og líklega ívið verra en í fyrra, og fer dagversnandi. Götur eru víða að grotna niður og miklar brotholur hafa fengið að myndast í malbikið mjög víða. Hverfisgatan sem hefur reyndar verið endurnýjuð í áföngum að mestu leyti, er í afleitu ástandi og orðin illfær á köflum fyrir venjulega fólksbíla eins og dæmið af óhappi Viðars sýnir vel. Miklar holur hafa myndast í hana, sérstaklega þó við hraðahindranir. Við hraðahindranirnar myndast djúpar holur sem ekið er ofaní og síðan upp úr og upp á hraðahindrunina, ofan af henni hinum megin og ofan í aðar djúpar holur. Einmitt þetta virðist hafa gerst í Viðars tilfelli á Hverfisgötunni. Bíllinn tók niðri öðru megin við hraðahindrun – olíupannan brotnaði og svuntan undir framenda bílsins tók einnig niðri og mölbrotnaði. Tjón Viðars og margra annarra undanfarna daga og vikur er verulegt.

 Svipað ástand og á Hverfisgötunni er að verða á Hofsvallagötu frá Hringbraut að Landakotsspítala, á Háaleitisbraut, Síðumúla og Ármúla, Hraunbæ, Rofabæ, svo fá dæmi séu nefnd. Frá öllum þessum götum og mjög mörgum fleiri streyma nánast daglega inn tilkynningar og hjálparbeiðnir til FÍB Aðstoðar frá fólki vegna sprunginna og tættra hjólbarða í holunum og brotinna fjaðragorma og allskonar annarra skemmda á farartækjunum. Það er sannarlega mál að linni.