Bíllinn verður þyrstur í kuldanum

Eftir því sem kólnar í veðri vex eldsneytiseyðsla bílsins. Umtalsverður munur er á eyðslu bílsins í vetrarkuldunum en um hásumarið þegar hlýjast er í veðri. Munurinn getur auðveldlega numið allt að 20 prósentum sem þýðir það að þú kemst verulega styttri vegalengd á lítranum þegar frost er og kuldar en að sumarlagi. En það er ekki bara vélin og gangverkið sem er þyngra á sér í kuldanum, heldur taka raftæki bílsins, sérstaklega þó rúðu-, spegla- og sætishitararnir og einnig miðstöðvarblásarinn og þurrkurnar til sín mikið rafmagn og þá þyngist heldur betur fyrir vélina að snúa rafalnum til að halda í við þessa stórauknu „eftirspurn“ eftir rafmagni.  

http://www.fib.is/myndir/Bensinmaelir.jpg

Bílarnir eyða mestu fyrstu mínúturnar eftir að þeir hafa verið gangsettir og því meir sem kaldara er í veðri. Stór hluti þeirrar orku sem er í eldsneytinu fer einfaldlega í það að hita vélina úr kannski -10 stiga frosti upp í vinnsluhita sem er í kringum 90 stig. Oft eru svo akstursvegalengdirnar ekki lengri en svo að bíll nær alls ekki að hitna til fulls upp í eðlilegan vinnsluhita. Síðan er drepið á honum og hann síðan ræstur næst eftir að hafa kólnað niður. Við þessar aðstæður slitnar vél og gangverk miklu hraðar en ella og eldsneytið bókstaflega rennur í gegn um bílinn og eyðslan er gífurleg.

Vissulega er hægt að vinna umtalsvert gegn þessari sóun með því einu að setja vélarhitara í bílinn, sé á annað borð hægt að koma því við. Vélarhitarinn hitar vélina upp í  námunda við vinnsluhita þannig að hún og innanrými bílsins er heitt þegar bíllinn er ræstur og eyðslutölurnar snarlækka.

En ef vélarhitari er ekki til staðar er samt hægt að gera sitt af hverju til að draga úr eyðslunni:

1.   Notaðu sem allra minnst afturrúðu-, sæta- og speglahitarana.

2.   Sjáðu til þess að loftþrýstingurinn í dekkjunum sé minnst sá sem hann á að vera     samkvæmt handbók bílsins og  gjarnan ca. 0,2 loftþyngdum hærri þegar kuldinn ríkir.

3.   Keyrðu vélina á sem lægstum snúningi og láttu hana ekki erfiða

4.   Smá snattferðir á bílnum kosta mikið. Sparaðu slíkan akstur sem allra mest.

 

New layer...