Bílljós í 100 ár

Philips er stærsti framleiðandi bílljósa í heiminum. Þriðji hver bíll í veröldinni er með Philips perur í aðalljósunum og annar hver bíll í Evrópu. Philips hefur búið til ljósgjafa í bíla allt frá 1914 og hefur því verið að í rúma öld. Upp á það var haldið í Barcelona í síðustu viku. Þar var rakin saga bílljósa frá 1914 til þessa dags – frá karbíðlugtum til LED og laserljósa.

Bílljósin hafa á þessum 100 árum breyst í takti við breytingar á bílunum sjálfum. Árið 1914 komust fæstir bílanna hraðar en á 30 og ljósin á þeim voru í rauninni lugtir eins og á hestvögnum. Í fyrstu var ein slík lugt var látin duga á hverjum bíl en síðar urðu tveir framan á brettunum algengar. Frá þessum lugtum stafaði hvítu lifandi karbíðljósi fram á við en á afturhlið luktarinnar var rautt gler. Það var allt og sumt. Í raun voru þessar luktir eiginlega bara fjósalugtir eins og þær sem bændur lýstu sér með í gripahúsunum sínum og fjósum við gegningar og mjaltir. Þar sem lýsingin frá þessum lugtum var afar dauf hlýtur akstur í myrkri að hafa verið erfiður og tvísýnn, sérstaklega þar sem götulýsingar fyrirfundust vart utan þröngra miðbæjarkjarna þéttbýlisstaða.

En árið 1914 hófst fyrri heimsstyrjöldin – fyrsta vélvædda stórstríðið og það kallaði á fleiri, betri og hraðskreiðari bíla og þar með á betri ljós á þá. Bílum hélt áfram að gjölga jafnt og þétt eftir stríðið, umferðin þéttist, hraði bílanna jókst og það krafðist sífellt betri ljósa. Philips var þátttakandi í þessu frá byrjun og sífellt að endurbæta bílljósin með rannsóknum og tilraunum.

Segja má að fundur þeirra Henry Ford og Anton Philips upp úr 1920 hafi markað þáttaskil í bílljósunum því að eftir hann lagði Henry Ford niður karbíðlugtirnar og lét setja rafmagnsljós á Ford T bílana í staðinn. Ford T var þannig einn fyrsti bíllinn með rafljósabúnað. Og að sjálfsögðu voru perurnar í þeim frá Philips. En æ síðan hefur Philips verið leiðandi í þróun bílljósa og frá Philips komu fyrstu halogen bílljósaperurnar. Philips átti einkaleyfið á fyrstu tveggja geisla bílljósaperunum (með háum og lágum geisla) og allir aðrir framleiðendur framleiddu slíkar perur út á það. En þróunarsaga bílljósa er hvergi nærri á enda. Það sýna nýjustu LED og Xenon ljósin fyrir utan halogen ljósin og í augsýn eru ljósker byggð á laser ljóstækni.