Bílvél ársins er VW 1,4 TSI

http://www.fib.is/myndir/VW_TSI_motor.jpg
VW 1,4 TSI.

Tímaritið Engine Technology International stendur á hverju ári fyrir því að valin er bílvél ársins. Þeir sem velja og útnefna vélar ársins eru 65 sérhæfðir tækniblaðamenn í 32 löndum í öllum heimshornum. Sl. miðvikudag var þetta val kunngjört. Af þeim tólf bílvélum sem hlutu viðurkenningu að þessu sinni voru ellefu þýskar. Bílvél ársins er TSI 1,4 vélin frá Volkswagen, sem á sínum tíma hlaut viðurkenningu sem besta nýjungin. 

Besta nýjungin að þessu sinni varð hins vegar ný 3,8 l boxervél frá Porsche. Eina bílvélin frá landi utan Evrópu sem verðlaun hlaut að þessu sinni var þriggja strokka vélin frá Toyota sem fyrirfinnst í Toyota Aygo og Toyota iQ, Citroen C1 og Peugeot 107.

Besta nýja bílvélin er sem fyrr segir Porsche vélin sem er í Carrera 911S. Hún er sex strokka boxervél, 385 hö og kemur bílnum á yfir 300 km hraða og eyðir í blönduðum akstri 10,2 lítrum af bensíni. Í flokki aflmestu véla sigraði Benz AMG V8. Hún er 6,2 lítra og fékk titilinn Performance Engine of the Year.

Volkswagen hlaut þrefaldan sigur fyrir 1,4 TSI Twincharger vélar sínar. Vélin var valin besta alþjóðlega bílvélin, besta vélin í stærðarflokknum 1,0 til 1,4 lítrar ásamt því að vera útnefnd grænasta vél ársins. Volkswagen hlaut einnig sigur í flokki véla frá 1,8 til 2,0. Hann féll í skaut 2,0 TFSI vélarinnar sem er í VW Golf GTI og Audi TT.

Eina dísilvélin sem hlaut viðurkenningu að þessu sinni var nýja 2,1 l Mercedes Benz tvítúrbínuvélin sem efst varð í flokki véla af stærð 2,0-2,5 l.