Bjargar Jeep Chrysler frá gjaldþroti?

http://www.fib.is/myndir/Chrysler-logo.jpg

Chrysler, sem Mercedes Benz seldi frá sér fyrir um ári til fjárfestingafélagsins Cerberus er í alvarlegum fjárhagskröggum. Bandarískir fjölmiðlar sem fjalla um bæði peninga- og bílamál eru jafnvel farin að spá því að Chrysler eigi skammt eftir í gjaldþrot. Tímaritið Fortune segir að hinir þrír stóru í Detroit, GM, Ford og Chrysler berjist nú í bökkum (og kannski líka í bönkum) en verst standi þó Chrysler.

American Motors var bílaframleiðslufyrirtæki sem Chrysler keypti á níunda áratuginum og sameinaði sér. Með í þeim kaupum fylgdi hið sögufræga vörumerki Jeep sem núna er nokkurnveginn það eina sem gengur hjá Chrysler.http://www.fib.is/myndir/Jeep%20Logo.jpg

Fyrrverandi stjórnarformaður American Motors, Gerald Meyer segir við bandaríska fjölmiðla að Jeep vörumerkið sé í dag meira virði en Chrysler og það muni lifa áfram þótt Chrysler fari á hausinn. Hann bendir á því til staðfestingar að þótt sala á Chryslerbílum dragist stöðugt saman gangi Jeep bara þokkalega. Fátt sé því í sjónmáli annað til bjargar Chrysler en að selja Jeep frá sér.

Talsmenn Chrysler hafa staðfastlega neitað því að Jeep sé yfirleitt til sölu. Fjármálasérfræðingum bandarískra fjölmiðla ber saman um að takist ekki að ná nýju og miklu fjármagni inn í Chrysler innan árs, séu dagar fyrirtækisins taldir. Það sé hægt að gera, allavega að hluta, með því að selja Jeep. Heppilegra sé þó að reyna að lokka fjárfesta inn í Chrysler með því að nota Jeep sem agn á öngulinn.