BMW 5-besti löggubíllinn

Áður en bílafloti sænsku lögreglunnar er endurnýjaður fara fram viðamiklar prófanir á þeim bílum sem til greina koma. Stjórn sænsku ríkislögreglunnar skipar í sérstaka prófunarnefnd fólk með vit á bílum og akstri, gjarnan með rætur í ralli og hverskonar aksturskeppni.

Slík prófunarlota hefur nýlega farið fram. Besti akstursbíllinn að mati prófunarnefndarinnar reyndist hinn fjórhjóladrifni BMW 525d Touring xDrive. Hann var þó ekki valinn, heldur sá bíll sem varð í öðru sæti hjá prófunarnefndinniM Volvo XC70. Það var vegna þess hve hátt er undir hann og hann almennt þægilegur í notkun og umgengni.

Þetta kemur fram í tímaritinu Svensk Polis sem gefið er út af ríkislögreglunni. Þar er greint frá því hvernig bílarnir eru prófaðir og hvaða bílar lentu í úrtakinu að þessu sinni og hvað er prófað og hvernig.  Gefin eru stig fyrir hvern prófunarþátt og út frá þeim er reiknuð heildareinkunn á bilinu 0-10. BMW bíllinn fékk einkunnina 8,8 en Volvoinn sem valinn var, hlaut 7,6.

Stjórnandi bílamála sænsku ríkislögreglunnar segir við tímaritið að lögreglan hafi byrjað að prófa bíla með þessum hætti árið 2003. Niðurstöðurnar hafi síðan þá ráðið því hvaða bílar urðu fyrir valinu hverju sinni. Finnist einhverjir ágallar í þeim bílum sem til greina koma, sé það sett sem skilyrði að þeir verði lagfærðir áður en af kaupum geti orðið.

Þeir bílar sem til greina koma sem lögreglubílar eru prófaðir út frá því að þeir dugi sem útkallsbílar. Þeir verða því að vera viðbragðsfljótir, stöðugir í neyðarakstri og með góða hemla og auk þess með gott burðarþol. Þeir fara gegn um harkaleg hemlunarpróf, þeim er ekið á miklum hraða í krákustíga,  þeir fara í „elgspróf“ (víkja snögglega hjá hindrun).

Besti bíllinn reyndist sem fyrr segir vera BMW 525d Touring xDrive með 8,8 í einkunn. Næstur var Volvo XC70 með 7,6, þriðji var Mercedes Benz E-lína og fjórði Volkswagen Passat. Í „öruggu“ neðsta sæti varð Opel Insignia með 4,6 í einkunn.