BMW átti bílvél ársins

http://www.fib.is/myndir/BMW_engine_award.jpg

BMW verksmiðjurnar urðu hlutskarpastar í árlegri samkeppni bílaframleiðenda um bestu bílvélina þegar viðurkenningin var veitt í fyrradag. Viðurkenning þessi nefnist International Engine of the Year Awards. Sú vél sem hlaut aðalviðurkenninguna, vél ársins. er sex strokka með tveimur túrbínum. Hana er að finna í 3-línu og 1-línu BMW bíla fyrst og fremst.

Þetta var þó ekki eina vélin frá BMW sem hlaut viðurkenningu því að BMW vélar hlutu viðurkenningar í samtals sex vélaflokkum. Af vélum annarra framleiðenda sem viðurkenningu hlutu í fyrradag má nefna vélina í Porsche 911 Turbo sem er sportbílsvél ársins 2008 og vélin í Toyota Prius varð „grænasta“ vél ársins 2008.

Verðlaunin voru veitt við athöfn í Stuttgart í fyrradag í tengslum við bílvélasýninguna Engine Expo. Það er bílatímaritið Engine Technology International sem stendur að verðlaunaveitingunni. Í dómnefndinni eru 65 bílablaðamenn frá 30 löndum.