BMW, Audi og MAN vilja eftirá-endurbæta Euro-5 dísilvélar

Fólksbíladísilvélin er í sterkum mótvindi um þessar mundir og yfirvöld víða í Evrópu hafa mikinn hug á því að banna hreinlega notkun dísilbíla. Ástæður andúðarinnar má augljóslega rekja til ,,Dieselgate” - hneykslisins sem sannaðist á Volkswagen. Líklegt er talið að fleiri framleiðendur dísilbíla hafi aðhafst svipað þótt lægra hafi farið.

En nú hefur það gerst að BMW, Audi og MAN hafa sent út fréttatilkynningar þar sem útskýrt er hvernig þeir hyggjast eftirá-endurbæta dísilbíla sína sem gerðarviðurkenndir eru samkvæmt Euro-5 útblástursstaðlinum (nú gildir Euro-6). Undirtektir yfirvalda í þýsku sambandsríkjunum eru misjafnar. Í Bayern, heimaríki BMW, Porsche, Mercedes og Bosch, fagna þau en, í Baden Württemberg segja þau -of lítið – of seint.

Hversvegna vilja margir banna notkun dísilbíla? Það er fyrst og fremst vegna skaðlegra (krabbameinsvaldandi) öragna og nítursambanda í útblæstri dísilvéla. En það fyrirfinnst búnaður í bílana sem kemur í veg fyrir að efnin berist út í andrúmsloftið. Það sem Volkswagen gerði (og líklega fleiri framleiðendur) var að koma fyrir hugbúnaði í dísilbílunum sem gerði þennan búnað óvirkan – nema þegar bílarnir voru mengunarmældir inni á skoðunarstöðvum.

En skaðinn er skeður af ,,Dieselgate” málinu Tiltrúin er sködduð og skattaglaðir stjórnmálamenn grípa tækifærið og hóta staðbundnum dísilbílabönnum sem fólk geti keypt sig frá með greiðslu sérstakra gjalda fyrir dísilbílanotkun hér og þar. Þetta hljómar ekkert ósvipað hugmyndum reykvískra borgaryfirvalda um að skattleggja öryggisbúnað eins og neglda vetrarhjólbarða.

Samkvæmt samantekt frá BMW eru um það bil 700.000 Euro-5 dísilbílar frá þeim í þýskri umferð. Gert er ráð fyrir því að svipaður fjöldi frá Audi sé í umferð en alls eru Euro-5 dísilbílar í þýskri umferð 5,9 milljónir eða þar um bil. Hjá BMW, Audi og MAN telja menn að uppfæra megi snarlega ríflega helming þeirra eigin Euro-5 dísilbíla á mjög einfaldan og ódýran hátt með því að einfaldlega hlaða inn nýjum hugbúnaði í tölvur bílanna.

-SÁ