BMW boðar þriggja strokka vélar

http://www.fib.is/myndir/BMW-dieselmotor.jpg

Lausnarorð dagsins í kreppunni í bílaiðnaðinum um þessar mundir er niðurfærsla eða –Downsizing. Í þeim anda er leitast við að þróa stöðugt minni og sparneytnari bílvélar án þess þó að draga úr aflinu svo neinu nemi. Volkswagen byrjaði einna fyrstur framleiðenda að feta niðurfærsluleiðina með litlu en öflugu TSI vélunum og nú er það BMW sem boðar þriggja strokka vélar í næstu kynslóð BMW 1-línunnar sem frumsýnd verður á Frankfurt bílasýningunni í september og á að koma á markað 2011.

Hin nýja BMW 1-lína verður stærri og rúmbetri en hún er nú og fleiri undirgerðir verða fáanlegar, m.a. ein sem beint er gegn Audi A3 Sportback. Stærsta fréttin er þó að fyrrnefndar þriggja strokka vélar eru væntanlegar.

Tæknilið BMW hefur lagt hart að sér undanfarin ár við að draga úr eldsneytiseyðslu bílanna og haft nokkurt erindi í þeim efnum. Nýjustu BMW bílarnir eru nú yfirleitt mjög sparneytnir og jafnvel sparneytnari en sambærilegir bílar keppinautanna. Nýju þriggja strokka vélarnar eru skilgetið afkæmi þessarar vinnu tæknifólksins hjá BMW. Þær eru sagðar verða þær sparneytnustu nokkru sinni hjá BMW en þökk sé nýrri túrbínutækni verði þær alls ekki aflminni en vélar BMW hingað til. Rúmtak þriggja strokka vélarinnar í BMW 1 verður 1.350 rúmsm. Í aflminnstu gerðinni verða hestöflin 110 en gert er ráð fyrir að sú algengasta verði með vinnslu upp á 190 Newtonmetra og hestöflin 163. Að öðru leyti geti verið um að ræða þriggja strokka 1.350 rúmsm vélar sem eru yfir 240 hö. með 260 Nm vinnslu.