BMW-eigendur ánægðastir

ADAC, systurfélag FÍB í Þýskalandi hefur spurt 20 þúsund félagsmenn sína um hvernig þeim líki við bíla sína. Bílarnir eru að meðaltali tveggja ára gamlir. Eigendur BMW bíla eru ánægðastir, í öðru sæti kemur svo Audi, Mini (sem er BMW) er í þriðja sæti og Mercedes Benz í því fjórða. Það eru því þýskar bíltegundir sem skipa fjögur efstu sætin í þessari ánægjuvog því þótt Mini sé að mestu byggður í Bretlandi er merkið í eigu BMW og öll hönnun og tæknibúnaður er frá BMW.

Þessi ánægjukönnun ADAC er mjög svipuð og ýmsar aðrar slíkar, svo sem AutoIndex á Norðurlöndunum. Bíleigendurnir svara spurningum um flest allt sem viðkemur bílnum, eins og aksturánægju, bilanatíðni, reksturskostnað en líka um viðmót sölu- og þjónustuaðila. Þessi tiltekna ADAC ánægjumæling sýnir kannski fyrst og fremst að eigendur  bíla í efri verðflokkum telja sig fá það sem þeir borga fyrir, það er að segja góðan bíl, öruggan í rekstri og góða þjónustu umboðs- og þjónustuaðila.

Annað eftirtektarvert við niðurstöðurnar er að japanskir og aðrir asískir bílar eru flestir í kring um miðjan vinsældalistann nema Mazda sem er í sjötta sæti, næst á eftir Volvo, sem verið hefur jafnt og þétt að klífa upp eftir listanum undanfarin ár.  Þá má það teljast nokkuð sérstakt að ódýra merkið Dacia frá Rúmeníu er vel ofan við miðjan lista í 11. sæti meðan „móðurbíltegundin“ Renault er í því 19.

Þjóðverjar virðast ekki mikið fyrir franska og ítalska bíla. Þá hafa þeir greinilega ekki mikið álit á Opel né öðrum GM bílum því að Opel situr í 23. sæti og Chevrolet (aðallega frá Kóreu) situr í 26. sæti.

http://www.fib.is/myndir/BMW-best.jpg