BMW fyrstir með veðurradar

http://www.fib.is/myndir/BMW-connected-drive.jpg
Sjálfvirkt og handvirkt Netsamband er hjartað í BMW Connected Drive.

Sól og heiður himinn er það ferðaveður sem flestir kjósa, ekki síst þeir sem aka í opnum sportbílum. Svo allt í einu eins og hendi sé veifað skellur stundum á óveður með þrumum, eldingum og ógurlegri úrkomu, jafnvel haglél, og þá er nú lítið gaman lengur á opna bílnum.  Nú er BMW að sjá við þessu og kemur fram með veðurradar í bíla sína.

Veðurradar BMW er nú hluti af þjónustu BMW við eigendur BMW bíla sem kallast Connected Drive. Veðurradarinn vinnur á sama hátt og þau tæki af þessu tagi sem eru í flestöllum flugvélum nú til dags. En auk þess að „sjá“ kólgubakkana framundan hefur tækið aðgang að veðurtunglamyndum og veðurradartækjum helstu veðurathugunarstofnana í Evrópu. Aðeins þarf að stilla inn svæðið sem ferðast er um og öll regnsvæði í grenndinni birtast á skjá í mælaborðinu. Tækið greinir auk þess hversu mikil úrkoman er og hverrar tegundar hún er – regn, hagl eða snjókoma. Veðurmyndirnar uppfærast sjálfvirkt á 15 mínútna fresti og hægt er að skoða þær í tveimur aðdráttarstillingum (zoom).

Connected Drive þjónusta BMW er einskonar rafræn veita upplýsinga og skemmtiefnis. Aðgangur að þjónustunni fæst í gegn um heildrænt móttöku- og miðlunarkerfi sem verður að vera til staðar í bílnum (Infotain-kerfi með tölvuskjá og bluetoot-gsm-síma). Hægt er að fylgjast með veðurspám fyrir hvaða svæði sem er í Evrópu í gegn um kerfið og bæði ráða í langtíma- og skammtíma-veðurspár fyrir þau svæði sem ætlunin er að ferðast um, eða verið er að ferðast um í sumarfríinu. Þessi nýja þjónusta BMW þykir gefa mjög nákvæma og góða mynd af veðri, vindum og skýjafari.

Enn sem komið er, er regnradarþjónusta þessi bundin við Þýskaland eitt, en frá og með júlímánuði nær hún til allrar Evrópu. Þá geta BMW ökumenn með áskrift að Connected Drive kerfinu fengið nákvæmar úrkomuspár fyrir hvaða svæði í álfunni sem er.

Connected Drive kerfið er tengt við þjónustukerfi BMW um Internetið. Bili t.d. bíllinn fást um kerfið upplýsingar um nákvæma staðsetningu bílsins og hægt að vísa á næsta þjónustuaðila. Verði slys eða árekstur hringir kerfið sjálfvirkt í neyðarnúmer og gefur jafnframt upplýsingar um ástandið, t.d. um hvar og hversu þung högg hafa komið á bílinn o.s.frv.


http://www.fib.is/myndir/BMW-regnradar.jpg

Regnradarinn sýnir hvar regnið er hverskonar úrkomu er um að ræða.