BMW hyggst selja 100.000 rafbíla 2017

Harald Kruger forstjóri BMW segir í viðtali við Suðurþýska dagblaðið að framundan sé talsvert stórt átak í sölu rafbíla. Markmiðið sé að selja 100 þúsund rafbíla á komandi ári sem er aukning um 2/3 miðað við árið sem er að líða.

Þótt vel nothæfir rafbílar hafi komið á markað fyrir áratug er það fyrst nú sem almenningur er almennt byrjaður að líta á þá sem raunhæfan kost, enda hafa vankantar þeirra eins og takmarkað framboð af hleðslustöðvum, stutt drægi og langur hleðslutími farið hraðminnkandi allra síðustu ár og mánuði. Fram kemur í viðtalinu við BMW forstjórann að BMW Group bindi einna mestar vonir við BMW i3 og af þeim 100 þúsund rafbílum sem selja skal á næsta ári verði 60 þúsund BMW i3. Afgangurinn – 40 þúsund bílar verði m.a. ofursportbíllinn i8. Þá séu væntanlegar fleiri rafknúnar gerðir eins og Mini, BMW x3 jepplingur o.fl. ,,Rafknúnir bílar eru framtíðin þótt ennþá sé eftirspurnin vissulega ekki komin að suðumarki,“ segir Harald Kruger.

BMW i3 rafbílinn fæst bæði með eða án rafstöðvar um borð í bílnum. FÍB blaðið hefur nýlega reynsluekið slíkum bíl með ,,heimarafstöð“ um borð og verður umfjöllun um bílinn í næsta tölublaði FÍB blaðsins. En óhætt er þó að segja að bíllinn virkaði afar vel í reynsluakstrinum. Hann hefur gott drægi og þegar lítið er orðið eftir á geymunum fer rafstöðin, sem knúin er lítilli mótorhjóls-bensínvél, í gang þannig að engin hætta er á að verða strand einhversstaðar á víðavangi vegna rafmagnsleysis, allavega ekki meðan eitthvað er eftir á bensíntanki bílsins sem tekur 9 lítra.