BMW kynnir i3 rafbílinn

BMW kynnti sl. mánudag rafbílinn i3 í London, New York og Bejing. Ian Robertson sölustjóri BMW sagði á kynningunni í London að með þessum bíl hyggist BMW ná marktækri („meaningful") hlutdeild í heimsmarkaðinum fyrir hreina rafbíla. Með þessum glæsilega hannaða og vel búna rafbíl stæðu kaupendum hans jafnframt til boða ýmis tilboð sem eru til þess fallin að sigrast á takmörkunum rafbílsins.

http://www.fib.is/myndir/BMWi3-2.jpg

Meðal þess sem BMW ætlar að bjóða kaupendum i3 rafbílsins upp á er eins konar tilboðspakki sem nefnist BMW viðbótarhreyfanleiki (BMW add-on mobility). Í þessum pakka felst það að kaupendur i3 fá aðgang að flota hefðbundinna bensín- og dísilbíla til lengri ferðalaga, sem rafbíllinn hentar verr til. Vonast er til að þessi lausn verði til þess að eyða svokölluðum drægisótta fólks við rafbílana. Drægi rafbílanna á hverri hleðslu er í fáum tilfellum mikið meir en þetta 120-220 km. Og þótt það dugi fyllilega til daglegs snatts á heimilisbíl þá dugar það engan veginn fyrir lengri ferðir, t.d. í sumarleyfinu og því velur fólk frekar hefðbundna bíla sem nýtast í daglega snattið en líka til lengri ferða.  Það velur rafbílinn frá og þessu vill BMW mæta með sínum BMW viðbótarhreyfanleika.

En samkvæmt því sem fram kom á kynningunni á i3 á mánudag, þá er drægi bílsins ekkert afleitt, eða 125-160 kílómetrar á hleðslunni. Með því auk afnotaréttar á langdrægum hefðbundnum bílum þegar þess gerist þörf, vonaðist Ian Robertson til þess að rafbíla-heimsmarkaðurinn tæki vel við sér og færi í þetta 150-160 þúsund bíla árlega sölu á næsta ári. Það er stórt stökk frá því sem var árið 2010 en þá seldust sjö þúsund rafbílar í heiminum öllum.

Vart er hægt að segja að BMW i3 sé ódýr bíll. Í Evrópu kostar hann 34.950 evrur og í Bandaríkjunum er verðið 46.500 dollarar. Það er talsvert hærra en hefðbundinn BMW 3 kostar. Þess ber þó að geta að stjórnvöld víða gefa margskonar skattaafslætti og fríðindi með hverjum keyptum rafbíl sem lækkar verðið verulega til neytenda.