BMW með rafbíla 2013

BMW ætlar að hella sér út í fjöldaframleiðslu á hreinum rafbíl sem kemur á almennan markað 2013. Bíllinn verður minni en BMW 1 og að miklu leyti úr koltrefjaefnum. Framleiðslan verður í Leipzig og bíllinn verður ekki markaðssettur undir merkjum BMW heldur einhverju undirmerkja fyrirtækisins, líklega Isetta, eins og þriggja hjóla örbíllinn frá BMW hét, sem framleiddur var skömmu eftir stríð.

http://www.fib.is/myndir/BMW-Isetta.jpg
BMW Isetta var þriggja hjóla örbíll sem fram-
leiddur var um og upp úr 1950. Bíllinn var sums-
staðar seldur undir merkinu Messerschmidt. Fáein
eintök þessa bíls bárust hingað til lands. Líklegt
þykir að nýi BMW rafbíllinn fái Isetta-nafnið. Út-
litið verði hins vegar líkara myndinni af bláa
bílnum hér að ofan.

Það var forstjóri BMW, Norbert Reithofer sem greindi frá þessu á blaðamannafundi nýlega. Hann sagði að um væri að ræða smábíl sem byggður yrði í nokkrum útfærslum sem allar væru fyrst og fremst ætlaðar til notkunar í borgum, ekki síst stórborgum. Framleiðslan mun fara fram í nýrri og fullkominni og mjög sveigjanlegri samsetningarverksmiðju BMW í Leipzig í austanverðu. Þýskalandi. 

 Nýi bíllinn verður að miklu leyti samsettur úr koltrefjaeiningum sem er níðsterkt efni, sterkara en stál en afar létt. Bíllinn er þannig sagður verða undir einu tonni að þyngd að rafhlöðunum meðtöldum. Hann verður fjögurra sæta, lítilsháttar styttri en Honda Jazz sem er 390 sm langur.

 Í þessum nýja smábíl verða líþíumrafhlöður frá Samsung/Bosch. Rafmótorinn verður aftur í bílnum og knýr afturhjólin og rafhlöðurnar verða líklega milli laga í tvöföldu gólfi bílsins. Gagnstætt t.d. Proton, Chevrolet Volt/Opel Amper og líklega einnig VW Up verður þessi nýi bíll hreinn rafbíll og ekki með rafstöð eins og fyrrnefndir bílar verða. Drægið er sagt verða allt að 160 km á rafhleðslunni miðað við rafgeymatækni augnabliksins. Hún virðist þó vera að taka framförum sem geta verið búnar að skila enn beira drægi árið 2013 þegar framleiðslan hefst.