BMW og Subaru í mestum metum hjá Svíum

http://www.fib.is/myndir/Sverige-fani.jpg

Systurfélag FÍB í Svíþjóð; Motormännens Riksförbund hefur birt árlega könnun meðal eigenda nýrra bíla í landinu. Í könnuninni eru kaupendur nýrra bíla spurðir hversu ánægðir þeir séu með nýja bílinn. Tæplega 16.000 bifreiðaeigendur svöruðu og hæstu einkunn fær BMW 5, Subaru Legacy lendir í öðru sæti og BMW 3 í því þriðja. Miðað við könnun síðasta árs hefur álit Svía á sænsku bílunum Volvo og Saab minnkað umtalsvert.

Ef marka má niðurstöðurnar þá benda þær til þess að vilji fólk vera þokkalega ánægt og öruggt með nýjan bíl, ætti það að fá sér japanskan. Vilji það bíl sem veitir mikla ánægju ætti það að fá sér BMW 5. Vilji það vera sem mest laust við vandamál vegna bíla, ætti það að forðast flestar gerðir sænskra bíla.

Motor - tímarit hins sænska systurfélags FÍB segir að þetta geti vart talist ánægjulegar niðurstöður fyrir sænskan bílaiðnað.  Könnunin nær til 49 mest seldu bílategunda og –gerða í Svíþjóð sem nýskráðar voru á tímabilinu október 2006 til mars 2007. Alls 15.931 bíleigandi tók þátt í könnuninni og svaraði spurningum um flest sem viðkemur nýja bílnum. Spurt er um atriði eins og væntingar til nýja bílsins, ágalla sem komið hefðu í ljós við hann, bilanir og viðmót sölu- og þjónustuaðila.

Miðað við síðustu könnun á undan sést að  sænsku bílarnir hafa fallið í áliti hjá heimamönnum. Mest seldi bíllinn í Svíþjóð; Volvo V70 lendir nú í 40. sæti af 49 og Saab 9-3 og 9-5 hrapa niður í 33. og og 45. sæti.  Sá sænski bíll sem best kemur út í könnuninni er Volvo C30 sem letni í 12. sæti. Athyglisvert er hversu japanskir bílar koma vel út. Subaru Legacy er sem fyrr sagði í öðru sæti, Toyota Avensis færist úr 13. Sætinu í fyrra upp í fjórða nú og Toyota Yaris er I því fimmta. Fimm af tíu efstu bílum í könnuninni eru japanskir