BMW sýnir hagnað þrátt fyrir erfitt árferði hjá bílaframleiðendum

Bílaframleiðendur um allan heim kvarta sáran en framleiðslugeta þeirra hefur dregist verulega saman á síðustu mánuðum vegna skorts á hálfleiðurum og öðrum íhlutum. Þetta má að mestu rekja til heimsfaraldursins en verksmiðjur sem annast framleiðslu þessara hlutu þurftu á tímabili að grípa til lokanna. Þetta ástand hefur valdið því seinkanir hafa orðið á afhendingu nýrra bíla.

Margir bílaframleiðendur hafa að vonum orðið fyrir fjárhagslegu tjóní vegna þessa. Þýski bílaframleiðandinn BMW tilkynnti hins vegar í vikunni um hagnað fyrirtækisins á þriðja ársfjórðungi yfirstandandi árs upp á 2,6 milljarða evra. Hærra verð á bílum og aukin sala í nýorkubílum er þakkaður þessi árangur. Spár BMW gerðu ráð fyrir að fyrirtækið myndi afhenta 90 þúsund færri bíla á þessu ári vegna skort á hálfleiðurum. Fram kemur að sala á rafknúnum ökutækjum hefur aukist umtalsvert. Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur salan tvöfaldast og nemur nú um 232 þúsund ökutækjum.

Fram kemur í tilkynningu frá BMW að betri vörusamsetning og góð verðsetning á nýjum ökutækjum samhliða stöðugri verðþróun notaðra bíla styrktu fjárhagslega afkomu fyrirtækisins. Greint er jafnframt frá rekstrarhagnaði (EBIT) framlegð í bíladeild þess upp á 7,8%.

Bílaframleiðendur á borð við Volkswagen, Renault og aðrir hafa greint frá dræmri sölu á þriðja ársfjórðungi vegna skorts á íhlutum. Keppinautar sem geta jafnað tapið með hærra verði eins og BMW gekk betur en öðrum. Þess má geta að framleiðsla fólksbíla almennt í Þýskalandi hefur dregist saman um rúm 30% það sem af er þessu ári.