B&O-hljómkerfi í Aston Martin

http://www.fib.is/myndir/Aston%20M-B&O.jpg

Danska hljómtækjaframleiðslufyrirtækið Bang & Olufsen og bílaframleiðandinn Aston Martin gerðu með sér samning um síðustu áramót um að B&O sæi um að framleiða hljómkerfi í lúxusvagninn Aston Martin DBS. Nú um níu mánuðum síðar eru fyrstu bílarnir með B&O hljómtækjunum að renna af færiböndunum hjá Aston Martin.

- Við erum stoltir af því að geta nú kynnt fyrsta áþreifanlega árangur samvinnu okkar við Aston Martin, segir Karl Kristian Hvidt Nielsen forstjóri B&O í fréttatilkynningu frá Bang & Olufsen. Hljómkerfið nefnist BeoSound DBS og er í fréttinni sagt vera einstakt, í sérflokki og mjög öflugt hljómkerfi sem hæfi bíl sem er einstakur og í sérflokki meðal bíla.

BeoSound DBS verður á næsta ári í boði í öðrum Aston Martin bíl – DB9 að því er segir í fréttatilkynningunni.