Bob Lutz hættir á GM

Hinn 78 ára gamli  strigakjaftur og bílamaður, Bob Lutz er á útleið úr yfirstjórn General Motors. Þar hefur hann starfað lengi sem yfirstjórnandi bílaframleiðslu GM, aðstoðarforstjóri og nú síðast sérlegur ráðgjafi hins nýja forstjóra, Ed Whitacre.

Bob Lutz er fyrst og fremst bílamaður og hefur þótt með afbrigðum yfirlýsingaglaður á ferlinum og ófeiminn. Það þótti t.d. djarflegt af honum fyrr í vetur að fullyrða að Cadillac CTS-V, sem fyrst og fremst er hans eigið verk, væri öflugasti, sterkasti og hraðskreiðasti fjöldaframleiddi og óbreytti fólksbíll veraldar. Bandaríski bílavefurinn Jalopnik vildi fá Lutz sjálfan til að sanna orð sín og safnaði saman nokkrum af helstu „fjölskyldutryllitækjum“ heims saman til að láta bílana etja kappi við Cadillac CTS á kappakstursbraut. Þetta voru bílar eins og M-gerðir BMW, Mercedes, Jaguar o.fl. Bob Lutz tók áskoruninni og var sjálfur meðal ökumanna á Cadillac CTS og viti menn – Cadillac bílarnir stóðu við sitt og sama gerði gamli Bob Lutz.

Auto Motor & Sport ræddi við Bob Lutz á bílasýningunni í Genf  í síðustu viku. Hann sagði þar að hann myndi hætta störfum eftir 47 ár í bílgreininni og fara á eftirlaun þann 1. maí nk. Einmitt nú væri rétti tíminn. GM væri loks farinn að feta réttan veg og gera það sem allir bílaframleiðendur ættu að gera – að leggja áherslu á góða hönnun og byggja svo bestu bílana. Aldrei áður í sögu GM hefði markmiðið verið jafn skýrt og einfalt. Hann harðneitaði því að nýi forstjórinn væri einfaldlega að losa sig við hann.

Automotive News spurði Bob Lutz nýlega að því af hvaða bíl, af sem hann hefur átt þátt í því að skapa, hann væri stoltastur. „Það hlýtur að vera Chevrolet Volt enda þótt ég hafi ekki sjálfur átt frumkvæðið að honum. Þegar við byrjuðum á Volt-verkefninu þá voru rafbílar bæði ljótir og leiðinlegir auk þess sem hið algerlega mislukkaða EV-1 verkefni var öllum í fersku minni. Það var því mjög erfitt að koma verkefninu í gang og sannfæra menn um gildi þess,“ sagði Lutz.

Bob Lutz hefur átt mjög skrautlegan feril innan bílafamleiðslunnar og komið við sögu allra bandarísku bílaframleiðslufyrirtækjanna, og líka BMW í Evrópu. Greinilegur hefur alla tíð verið áhugi hans á aflmiklum bílum og því hefur öflugt liðsinni hans við Chevrolet Volt verkefnið þótt nokkrum tíðindum sæta. Lutz hefur alla tíð verið mikill orðhákur og aðspurður um þetta sagði hann að það væri með sig eins og sjálfan djöfulinn sem verður heilagur þegar hann tekur að gamlast.

Hann segir að aldrei áður í sögu bílsins hafi jafn merkilegir hlutir verið að gerast eins og nú. Hann er óspar á að mæla fyrir framtíðarmöguleikum rafbílsins. Hann bendir á að það sé einmitt loftslagsógnin sem sé stærsti hvati þeirrar tækniþróunar sem nú sé að eiga sér stað í bílunum.