Bók um aksturstækni á torfærumótorhjólum

http://www.fib.is/myndir/Adventure.jpg
 Forhlið bókarinnar Adventure Riding Techniques. Allar ljósmyndir í henni eru frá Íslandi, teknar af Þorvaldi Erni Kristmundssyni sem er lesendum FÍB  blaðsins að góðu kunnur, því margar myndir hans hafa birst í blaðinu undanfarin ár.

Út er komin bókin Adventure Riding Techniques eftir Robert Wicks hjá bókaútgáfunni Haynes. Þessi bók er um akstur mótorhjóla í hinum ýmsu svaðilförum og þegar kom að myndefni fyrir bókina komst ekkert annað að hjá höfundi en Ísland.

http://www.fib.is/myndir/Adventure2.jpgHöfðu útgefendur því samband við íslenska mótorhjólaferðafyrirtækið Biking Viking sem lögðu þeim til BMW hjól og mannskap, auk þekkingar sinnar á landinu til að þetta gæti orðið að veruleika. Einnig var heimsfrægur mótorhjólakappi að nafni Simon Pavey með í för, en hann hefur meðal annars keppt sjö sinnum í París Dakar rallinu. Hann rekur líka skóla fyrir akstur torfæruhjóla í Wales og kenndi Ewan MacGregor og Charley Boorman fyrir hnattferðir sínar.

Útkoman af þessari miklu skipulagningu var þriggja daga ferð um hálendi Íslands og afraksturinn meira en 1500 myndir sem teknar voru af Þorvaldi Erni Kristmundssyni ljósmyndara og eru þær uppistaðan af myndum í bókinni. Að sögn Njáls Gunnlaugssonar hjá Biking Viking er bókin einstaklega góð kynning á landinu og því sem það hefur upp á að bjóða fyrir ævintýraferðir á mótorhjólum. “Það var nánast sama hvert við fórum með þá, alls staðar var myndefni og á þessum þremur dögum höfðu þeir fengið allar þær myndir sem þeir þurftu, og meira til” sagði Njáll.

Hægt er að panta bókina beint frá Amazon.com eða Haynes.com.