Bonnie Raitt blúsgítarhetja keyrir á jurtaolíu

The image “http://www.fib.is/myndir/Bonnie-Raitt.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Bonnie Raitt.
Ósköp venjulega dísilbíla stóra sem smáa má keyra á venjulegri matarolíu. Sömuleiðis er það sáraeinfalt að hreinsa notaða steikingarolíu frá skyndibitastað sem hvort eð er á að henda, þannig að hún verði hið ágætasta eldsneyti á dísilknúna heimilisbílinn. Til þess þarf einungis að byrja á því að sía olíuna en fella síðan út glycerínið í henni með því að hræra út í hana tréspíra  og vítissóda. Reyndar er þannig vinnsla á slíkri olíu þegar hafin í talsverðum mæli í Evrópu og lítilsháttar í Bandaríkjunum. Olíufélagið Shell framleiðir t.d. lífræna dísilolíu sem nefnist Sun Diesel. Þú getur séð hvernig farið er að þessu Með því að smella hérna.
En í Bandarískum fjölmiðlum var greint frá því í vikunni sem er að líða að blúsgítarhetjan Bonnie Raitt væri að leggja upp í tónleikaferð um Bandaríkin og væru rúturnar og flutningabílarnir sem hljómlistarfólkið ferðaðist á knúnir lífrænni olíu. Hljómleikaferðin nefnist Green Highway og er á öðrum þræði kynning á lífrænni dísilolíu, vetnistækni, vind- og sólarorku. Bonnie Raitt sagði við fjölmiðla við upphaf tónleikaferðarinnar að það væri ekki fyrir tilviljun að Bandaríkin stefndu hraðbyri í óefni með umhverfismál sín og efnahagsmál, heldur fyrir skammsýni og þvermóðsku stjórnvalda og stórfyrirtækja. „Við förum þessa tónleikaferð til að sýna fram á að það er hægt að viðhalda þeim lífsstíl sem við höfum tamið okkur án þess að ganga á auðlindir jarðar og án þess að spilla náttúrunni,“ sagði hún.
Hún sagði að lífræn dísilolía á bíla þýddi að miklu minni mengun frá þeim. Lífræna olíu væri hægt að nota á flesta dísilbíla án nokkurra breytinga og á öðrum þyrfti að gera mjög smávægilegar breytingar til að aðlaga þá hreinni jurtaolíu. En á slíka bíla mætti blanda jurtaolíu saman við venjulega dísilolíu og þá þyrfti engu að breyta en útblástursmengun frá bílunum minnkaði eftir því sem stærra hlutfall blöndunnar væri jurtaolía.
Bob Metz er forseti félags bandarískra áhugamanna um lífræna dísilolíu. Hann segir það frábært framtak hjá listakonunni að nota orku á bíla sína sem ræktuð er af bandarískum bændum. Ekki aðeins sé mengun frá bílum sem knúnir eru lífrænni olíu aðeins brot af því sem bílar knúnir venjulegri dísilolíu gefi frá sér, heldur sýni framtak Bonnie Raitt það líka að það sé óþarfi að vera háður innfluttum orkugjöfum.