Borgarlína – markmiðið að auka vægi almenningssamgangna

Þáttaskil urðu í undirbúningi fyrirhugaðrar Borgarlínu, nýs hágæða samgöngukerfis sem fá mun sérrými í gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins, þegar vinnslutillögur um breytingar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til 2040 og aðalskipulagi sveitarfélaganna sex sem standa að Borgarlínu, voru kynntar á sameiginlegum fundi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu í Kópavogi í gær.

Skiptar skoðanir eru meðal almennings um lagningu fyrirhugaðra Borgarlínu og hafa margir komið fram og hvatt aðila sem standa að henni að hugsa málið vel áður en ráðist verður í framkvæmdir. Gagnrýnendur benda á að tækninni fleygi hratt fram og skoða verði aðra möguleika.

Skipulagstillaga, ekki framkvæmdaáætlun

,,Þetta eru skipulagstillögur, málið er í kynningu, og rauninni erum við að bíða eftir ábendingum og athugasemdum. Þær þurfa að berast til okkar skriflega, hvort sem er til sveitarfélaganna sem standa að málinu eða til okkar á SSH. Við munum þróa þessar tillögur eitthvað frekar og þær verða síðan aftur auglýstar eftir að hafa farið í gegnum afgreiðslu hjá umræddum sveitarfélögum. Þá gefst aftur almenningi og öðrum að kynna sér málið og sjá hvernig málinu hefur undið fram. Þetta er skipulagstillaga, ekki framkvæmdaáætlun. Umræðan er svolítið á þeim nótunum eins sé verið að fara í framkvæmdir en svo er alls ekki. Forsenda þess að sé hægt í rauninni að byrja að undirbúa framkvæmdir, þó ekki væri nema á litlum hluta af þessu, er að það sé eitthvert heildarnet skipulagt. Púslin munu svo á endanum mynda einhverja samfærandi heild. Á vefsíðunni borgarlinan.is hefur verið sett upp með einföldum hætti upplýsingum um verkefnið og þar er að finna skipulagstillögur allra sveitarfélaganna og tímalínu,“ segir Hrafnkell Á. Proppe svæðisskipulagsstjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Á fundinum í gær voru kynntar tillögur um staðsetningu línuleiða og helstu stöðva Borgarlínu og skilgreind viðmið um uppbyggingu á áhrifasvæðum línunnar en gert er ráð fyrir að Borgarlínan verði allt að 57 km að lengd og að verkefnið verði áfangaskipt.

Þær vinnslutillögur sem nú eru í forkynningu byggja á valkostagreiningu dönsku verkfræðistofunnar COWI. Í þeirri vinnu var horft til þess hvernig höfuðborgarsvæðið muni þróast næstu ártugi.

Um er að ræða tillögu að heildarneti innviða sem byggt verði upp í áföngum. Stefnt er að því að endanlegar tillögur um legu línunnar liggi fyrir síðsumars og að undirbúningi fyrsta áfanga ljúki í byrjun árs 2018.

Kostnaður við innviði Borgarlínu er áætlaður um 1,10-1,15 milljarður króna á hvern kílómetra á verðlagi í janúar 2017 og því gæti kostnaður við heildarnetið, sem byggt verður upp í áföngum, numið 63 til 70 milljörðum króna.

Áætlað er að á næstu 25 árum fjölgi íbúum höfuðborgarsvæðisins um hátt í 40% eða um 70.000 og verði þá orðnir tæplega 300 þúsund. Þegar við bætist vaxandi straumur ferðamanna er ljóst að það stefnir í stóraukna umferð.

Haldist ferðavenjur óbreyttar mun þessi fjölgun valda erfiðleikum í samgöngum og auknum töfum í umferðinni, þrátt fyrir gríðarlegar fjárfestingar í nýjum umferðarmannvirkjum. Áætlað er að ferðatími geti að óbreyttu aukist um allt að 65% og umferðatafir um rúmlega 80%.

Markmið sveitarfélaganna með Borgarlínu er að auka vægi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Það mun ekki gerast án þess að byggðir verði upp innviðir fyrir afkastamiklar almenningssamgöngur. Um Borgarlínu gilda sömu lögmál og við skipulag innviða annarra samgangna, s.s. stofnvega.

Horfa þarf áratugi fram í tímann þannig að þeir áfangar sem byggðir verða upp myndi á endanum eðlilega heild. Ljóst er að umferðamál höfuðborgarsvæðisins verða ekki leyst með annaðhvort öflugra gatnakerfi eða almenningssamgöngum. Því þarf samspil þessara tveggja lausna að koma til og þar munu almenningssamgöngur gegna mikilvægu hlutverki fyrir íbúa svæðisins.

Ein helsta áskorun borgarumhverfis framtíðarinnar er plássleysi og sökum þess munu fyrirsjáanlegar tækniframfarir með sjálfkeyrandi bílum aldrei geta leyst af hólmi afkastamiklar almenningssamgöngur.

Borgarlína er afrakstur umfangsmikils og náins samstarfs sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri og að baki liggur nákvæm greining á framtíð samgangna á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við Vegagerðina. 

Vagnar Borgarlínu verða rafknúnir og munu ferðast í sérrýmum og fá forgang á umferðarljósum. Það eykur áreiðanleika og hraða, þannig að ferðatími verði samkeppnishæfari við aðra ferðamáta.

Fyrirhuguð Borgarlína er því hagkvæm og vistvæn leið til að auka flutningsgetu á milli sveitarfélaganna og gera þeim kleift að mæta tæplega 40% fjölgun íbúa og fjölgun ferðamanna fram til ársins 2040 án þess að álag á stofnvegakerfið aukist að sama skapi. Gert er ráð fyrir mikilli ferðatíðni sem geti farið í 5-7 mínútur á annatímum.

Lögð verður áhersla á vandaðar, yfirbyggðar biðstöðvar, með farmiðasjálfsölum og upplýsingaskiltum sem sýna í rauntíma hvenær næsti vagn kemur. Vagnarnir munu stöðva þétt við brautarpalla sem verða í sömu hæð og gólf vagnanna sem auðveldar aðgengi fyrir alla.