Borgarsmábíll með allt að 150 km drægni

BL hefur tekið við umboði fyrir rafknúin farartæki frá spænska fyrirtækinu Invicta Electric sem selur mismunandi gerðir 100% rafdrifinna fólks- og sendibíla ásamt rafknúnum reiðhjólum, rafmagnsvespum og rafskútum.

Á næstu vikum og mánuðum verður unnið að uppbyggingu umboðsins hér á landi sem staðsett verður við Sævarhöfða, m.a. með innkaupum á lager og uppsetningu á heimasíðu merkisins hjá BL.

Til kynningar fyrir viðskiptavini hefur BL þegar nýskráð fyrstu tvö eintök rafknúna borgarsmábílsins Invicta Electric D2S sem hægt er að kynna sér í sýningarsalnum við Sævarhöfða ásamt því að prófa reynsluakstursbíl.

D2S er tveggja sæta smábíll sem er með 17 kWh rafhlöðu og uppgefna drægni allt að 150 km og hentar því vel í hverskyns útréttingar sem þarfir einstaklinga og fyrirtækja kalla á í síauknu mæli. Til viðbótar við 5 ára ábyrgð er staðalbúnaður D2S meðal annars álfelgur, leðursæti, Bluetooth, bakkmyndavél og fjarlægðarskynjarar að aftan.

Verð á Invicta Electric D2S er 2.490.000 kr. Nánar verður greint frá öðrum gerðum farartækja Invicta Electric er nær dregur formlegri kynningu merkisins hjá BL.