Borgin vill leggja gjald á nagladekk

Tillaga umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur um fræðsluátak og gjaldtökuheimild vegna notkunar nagladekkja var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði í gær, 7. júní.  Sviðinu er jafnframt falið að koma tillögu að lagabreytingu á framfæri við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Alþingi. Endurskoðun umferðarlaga hefur verið á dagskrá Alþingis í nokkur ár en ekki náð fram að ganga. Sveitarfélög hafa ekki heimild eins og stendur til að leggja gjald á notkun nagladekkja. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Reykjavíkurborg leggur því fram tillögu að nýju lagaákvæði í umferðarlögum um heimild til gjaldtöku vegna notkunar nagladekkja. Lagt er til að á eftir 60. gr. í VIII. kafla umferðalaga nr. 50/1987 (um ökutæki) bætist við ný grein er orðast svo:

„Sveitarstjórn er heimilt að ákveða gjald af notkun hjólbarða með nöglum á nánar tilteknum svæðum. Sveitarstjórn skal ákveða gjaldtöku að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið. Með gjaldtöku er átt við gjald sem eigandi eða ökumaður ökutækis skal greiða fyrir heimild til að aka á hjólbörðum með nöglum þann tíma sem notkun þeirra er leyfð.“

Hlutfall bíla á nöglum hefur hækkað að undanförnu og er nauðsynlegt að bregðast við því með einhverjum hætti. Bíll á nagladekkjum slítur malbiki um það bil hundraðfalt hraðar en bíll á ónegldum dekkjum. Það er staðreynd þrátt fyrir jákvæða þróun á gerð naglanna. Áhrifaþættir á slit malbiks eru m.a. gerð nagla, fjöldi nagla í dekki, þyngd ökutækis, hraði og ökulag. Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar

Enginn vafi er á að minni nagladekkjanotkun dregur úr sliti og er brýnt að stefna að því. Fleiri ókostir fylgja nagladekkjum. Uppspænt malbik er þáttur í svifryki sem eru smáar agnir sem svífa í andrúmsloftinu og valda óþægindum í lungum. Svifryksmengun er sú tegund mengunar, sem fer oftast yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík. Á árunum 2002-2010 fór svifryk yfir sólarhringsheilsuverndarmörk um 29 sinnum á ári.  Þeim skiptum hefur fækkað  niður í um 8-9 skipti á ári  frá árinu 2012. 

Tvær rannsóknir á samsetningu svifryks í Reykjavík hafa verið gerðar og sýndi sú fyrri, frá árinu 2003, að hlutfall malbiks í svifryki var rúmlega 55% en á þeim tíma voru yfir 60% bifreiða á nöglum. Árið  2012 var hlutfall malbiks í svifryki um 18% en þá voru um 35% bifreiða á nöglum. Frekari rannsókna er þörf en þessar niðurstöður benda til þess að samdráttur í nagladekkjanotkun geti tengst minnkun malbiks í svifryki.

Talningar sýna að bílum á nagladekkjum fjölgaði aftur í Reykjavík veturinn 2016/2017 og fór hlutfallið um tíma í 47% nagladekk á móti 53% á öðrum tegundum. Brýnt er að bregðast við þessu og er takmörkun á nöglum liður í því að sporna gegn svifryksmengun segir m.a. í tilkynningunni.