Börnin vilja horfa á dvd í bílnum

http://www.fib.is/myndir/B%F6rn%EDb%EDl.jpg
 
Börnin vilja heldur horfa á bíómynd í DVD spilara en að telja bíla á langri bílferð að heiman til sumarleyfisstaðarins. Alls svöruðu 1098 spurningum á heimasíðu FDM, systurfélags FÍB í Danmörku um athafnir barnanna í bílnum á langferðalögum. Rúmlega þriðji hver eða 36% sögðu að börnin horfðu á DVD en aðeins 4% töldu bíla.

Randi Voldbakken er ferðaráðgjafi hjá FDM. Hún segir að áður fyrr hafi börnin haft ofan af fyrir sér með því að telja bíla eða fara í ýmiskonar hugarleiki á löngum bílferðum. Nú vilji þau helst horfa á mynd í DVD spilara, en DVD spilarar eru orðnir einn vinsælasti ferðabúnaðurinn í bílum.

Fyrir utan það að horfa á bíómyndir í langri bílferð, kýs sjötta hvert barn eða 16% að hlusta á tónlist, 10% vilja helst spila tölvuleiki og 8% lesa bækur eða myndasögur, 7% hlusta á hljóðbækur, 7% leika orðaleiki og 2% teikna eða lita.
 
„Það getur verið börnum mjög erfitt að sitja klukkustundum saman kyrr í aftursætinu. Það er því mikilvægt að sjá þeim fyrir afþreyingu þegar ekið er langar leiðir. DVD og tölvuspil tryggja ró í aftursætinu en þegar rafhlöðurnar tæmast þá eru vissulega til ýmsir leikir til að stytta biðina fyrir börnunum,“ segir Randi Voldbakken. Hún bendir jafnframt á að lítil börn eigi erfitt með að skilja fjarlægðir og því ágæt hugmynd að skýra þær fyrir þeim með því að sýna þeim á vegakorti hversu langt sé náð.

Hún ráðleggur fólki jafnframt að taka hvíld frá akstri á um það bil tveggja tíma fresti til að teygja úr sér og hreyfa sig og t.d. bregða sér í smá boltaleik eða kasta frisbee á milli sín. Það tryggir yfirleitt meiri ró og betri líðan allra í bílnum.