Brandarakall í bílasjónvarp

Kannski að bílasjónvarpsþáttaröðin Top Gear fái senn verðugan keppinaut, því að fregnir frá Bandaríkjunum herma að uppistandarinn og brandarakallinn Jerry Seinfeld sé byrjaður að vinna að nýrri sjónvarpsþáttaröð sem muni heita Comics and Cars. Þegar mun byrjað að taka upp efni í þáttaröðina.

Sérfróðar manneskjur um gamanþáttaröð Seinfelds sem lengi gekk í íslensku sjónvarpi, segja að snilld þáttanna hafi einkum falist í því að þeir hafi í raun ekki verið um neitt sérstakt, heldur bara nokkurskonar skyndimyndir af skondnu venjulegu fólki í daglegu amstri. En nái Comics and Cars svipuðu flugi og gömlu þættirnir, má vissulega reikna með skemmtilegum bílaþáttum um „ekki neitt.“ í það minnsta er talað um að ýmislegt bandarískt frægðarfólk sem margir telja fyndið verði gestir í þessum nýju bílaþáttum. Þar eru nefndir fyrstir til sögu brandarakallarnir Ricky Gervais, Alec Baldwin og Larry David.