Brasilía að verða fjórða mesta bílalandið
Miklar breytingar eru nú orðnar á helstu markaðssvæðum bíla í heiminum. Bandaríkin hafa alla síðustu öld verið mesta bílaríki veraldar og þar hafa selst fleiri bílar en annarsstaðar í heiminum. En ekki er langt síðan Kína fór fram úr Bandaríkjunum í þessum efnum og nú er það að gerast að Brasilía er að fara fram úr Þýskalandi sem hefur verið þriðja mesta bílalandið og mesta bílaland Evrópuálfu.
Árið í fyrra var erfitt vestræna bílaiðnaðinum og bílasala í Bandaríkjunum hrapaði og endaði með að vera 10,4 milljónir seldra bíla. En bílasala í Kína hefur stöðugt verið að aukast og í kreppunni í fyrra hægði þar nánast ekkert á aukningunni. Á endanum kom í ljós að seldir nýir bílar í Kína urðu 13,5 milljón stykki. Í Evrópu var nýbílasölunni haldið uppi með tímabundnum og háum skilagjöldum á gamla eyðslufreka bíla (eins og í Bandaríkjunum). Vegna skilagjaldanna dróst nýbílasalan lítið saman í Evrópu miðað við árið á undan og niðurstaðan varð sú að alls seldust 14,5 milljón nýir bílar í Evrópu í fyrra.
Rússland hefur verið mjög vaxandi bílaland og árið 2008 benti flest til að landið færi fram úr Þýskalandi sem mesta bílaland í Evrópu. En þá skall kreppan á og hún kom hart niður í Rússlandi - nýbílasalan hrundi og Rússland náði ekki að velta Þýskalandi úr sæti.
En nú fær Þýskaland samkeppni úr annarri átt því að bílafjöldi í Brasilíu hefur vaxið mjög. Þar hefur bjargálna millistétt verið að eflast undanfarinn áratug og þessi millilstétt kaupir bíla sem aldrei fyrr. Brasilía hefur verið í tíunda sæti mestu bílaþjóða heims en allt bendir til þess að ríkið skjótist upp í fjörða sæti á þessu ári.
Sala nýrra bíla í Brasilíu jókst á fyrsta fjórðungi ársins um 18 prósent miðað við sama tíma í fyrra. Seldir bílar á fyrsta ársfjórðungi er 788 þúsund bílar. Spár gerður ráð fyrir því að alls myndu 3,4 milljónir bíla seljast í Brasilíu á þessu ári en þeir geta auðveldlega orðið nokkru fleir en svo, ef fram fer sem horfir. Gert er ráð fyrir því að árið 2015 verði árlega sala nýrra bíla í Brasilíu í kring um sex milljón bílar.