Brennisteinsmengunin frá Holuhrauni

Undanfarið hefur evrópsk samgönguvika staðið yfir og í dag er hápunktur hennar, hinn svonefndi bíllausi dagur. Haldið hefur verið upp á þenna dag nokkur undanfarin ár án mikilla undirtekta almennings. Umferð bifreiða um vegi og götur landsins hefur eftir því sem best er vitað aldrei mælst vera neitt öðruvísi þennan dag en aðra daga.

Margir telja bílinn vera hinn versta skaðvald og andrúmsloftsspilli. Því horfi það mjög til almannaheilla að draga sem mest úr notkun hans með bæði skattlagningu og hverskonar takmörkunum og hindrunum og koma þeim sem þurfa að vera hreyfanlegir í daglegu amstri sínu upp á reiðhjól, á tvo jafnfljóta og upp í strætisvagna og helst líka inn í léttlestar og skal einskis ófreistað til að svo megi verða sem allra fyrst.

En hvað varðar loftmengun frá bílum þá er því lítið haldið á lofti af andstæðingum bílanotkunar að á einungis tæpum tveimur áratugum hefur loftmengun frá bílum mjög minnkað. Fólksbíll dagsins í dag blæs frá sér 80-90 prósent minna magni skaðlegra lofttegunda en sambærilegur bíll gerði fyrir tæpum tveimur áratugum. Þetta er miklu minna en ætla mætti af fyrirferð einhliða umræðu um þessi mál.

Félagið Andríki sem gefur út Vef-þjóðviljann  setur rmengun frá bílnum í ágætt samhengi við eldsumbrotin í Holuhrauni í grein sem þar birtist í morgun. Í henni segir m.a. að íslenski bílaflotinn brenni um 250 þúsund tonnum af eldsneyti. Í hverju tonni bílaeldsneytis séu um 8 grömm af brennisteini sem þýðir að frá bílununm berast um tvö tonn af brennisteini út í andrúmsloftið. Brennisteinn í andrúmslofti er talinn mynda súrt regn sem m.a. valdi skógadauða og annarri gróðureyðingu.

Þessi tvö brennisteinstonn frá bílum eru hins vegar algert smáræði hjá eldgosinu í Holuhrauni. Þann tíma sem það hefur staðið má gera ráð fyrir því að 2,5 milljónir tonna hafi borist frá gosinu út í andrúmsloftið eða um 20 þúsund tonn á dag. Það tæki bílaflota Íslendinga því yfir milljón ár að spúa frá sér jafn miklum brennisteini og Holuhraun hefur gert á nokkrum vikum. Það tæki allan bílaflota Vesturlanda sömuleiðis nokkrar aldir að
jafna þennan brennisteinsútblástur Holuhrauns.

Spurning Andríkis á Vef-þjóðviljanum er því þessi: -Eru ekki örugglega allir tilbúnir fyrir „bíllausa daginn“ í dag?