Brent hráolíuverðið fallið undir 100 dollara tunnan

Framvirkir samningar á olíumarkaði í Lundúnum gær fóru um tíma niður í 98 dollara á tunnu en verðið hækkaði undir lokun í 99.91 dollar. Nú í morgun hefur Brent hráolíuverðið lækkað lítilega.

Brent olían hefur lækkað um 10 prósent í mánuðinum og nærri 5 prósent síðustu 7 daga. Sumir sérfræðingar telja að þessi þróun geti haldið áfram.

Fyrir ári síðan gerðust svipaðir hlutir á markaðnum þegar verðið á Brent olíunni fór úr um 120 dollurum niður í 90 dollara í júní 2012. Ein skýringin á þróunninni þá var minni eftirspurn eftir hráolíu frá olíuhreinsunarstöðvum sem voru lokaðar vegna árlegs viðhalds.

Sérfræðingar hjá Goldman Sachs ráðleggja viðskiptavinum að fara sér hægt varðandi Brent samninga.  Sérfræðingarnir segja að það verði að skýrast betur hvort verðfallið sé tímabundið vegna ofmats á sumareftirspurn eða hvort um sé að ræða dýpri undirliggjandi efnahagslega veikleika.

Brent hráolíuverðið hefur verið undir þrýstingi þar sem framboð á hráolíu hefur aukist og einnig vegna verri rekstrarstöðu evrópskra olíuhreinsunarstöðva sem eru helstu kaupendur hráolíu.

Fjárfestar væntu þess í byrjun árs að Brent yrði áfram sterkt á markaði og áhugaverður fjárfestingakostur en þróunin undanfarnar vikur hefur aukið söluþrýsting á Brent hráolíu.

Minni hagvöxtur í Kína en spár gerðu ráð fyrir og efnahagsleg svartsýni hefur þrýst á lækkun olíuverðs út um allan heim.

Sérfræðinga greinir á um hvort muni vega þyngra varðandi þróun olíuverðs á næstunni efnahgshorfur í heiminum eða eftirspurn. Talið er að eftirspurn muni aftur aukast þegar árlegu tímabundnu viðhaldi margra olíuhreinsunarstöðva lýkur og með aukinni orkuþörf Kínverja.

Verðfallið á Brent hráolíu gæti einnig gengið til baka ef stórir kaupendur sæju tækifæri í kaupum þegar verðið hefur lækkað sem aftur eykur eftirspurn. 

100 dollara viðmiðið hefur áhrif á fjárfesta og gæti kallað á viðbrögð frá OPEC, samtökum olíuframleiðsluríkja.  OPEC gæti dregið úr framleiðslu til að hafa áhrif á markaðinn.  Ótti markaðarins við aðgerðir af hálfu OPEC getur einn og sér dregið úr verðlækkun á olíu.

   -Byggt á FT