Brimborg opnar í sumar öflugustu hraðhleðslustöð landsins í Reykjanesbæ

Brimborg hefur hafið framkvæmdir við uppsetningu á öflugustu hraðhleðslustöð landsins þar sem rafmagnsvinnuvél sér um jarðvinnu og aðföng eru flutt á verkstað á rafmagnssendibíl. Stöðinni hefur verið valinn staður á Flugvöllum í Reykjanesbæ stutt frá flugstöðinni.

Um er að ræða stöð af Kempower gerð með hleðsluafköst allt að 600 kW og getur stöðin annað hleðslu 8 ökutækja í einu af öllum stærðum og gerðum. Brimborg hefur samið við HS veitur um orku fyrir stöðina og hefur stór heimtaug þegar verið virkjuð. Stöðin verður opin öllum rafbílanotendum með e1 hleðsluappinu og opnar í sumar. Stöðin er svokölluð fjöltengjastöð með 8 öflugum CCS tengjum.

Sex tengjanna eru með hámarksafkastagetu upp á 120 kW sem jafngildir því að algengur rafbíll (miðað við 400 volta rafspennu á kerfi bílsins) sem getur fullnýtt þessi afköst getur hlaðið 120 kWh á klukkustund eða um 30 kWh á korteri. Það þýðir fyrir rafbíl sem eyðir um 20 kWh per 100 km að hann nái 150 km í viðbótardrægni á korteri.

Til viðbótar eru tvö vökvakæld tengi sem eru með hámarksafkastagetu upp á 375 kW fyrir rafknúin ökutæki sem keyra á hærri rafspennu (miðað við yfir 750 volta rafspennu á kerfi bílsins). Það jafngildir því að vörubíll sem getur fullnýtt þessi afköst getur hlaðið 375 kWh á klukkustund eða um 94 kWh á korteri. Algengt er að rafknúnir vörubílar hafi hleðslugetu upp á 250 kW og þá ná þeir á 30 mínútum 125 kWh. Ef eyðsla rafmagnsvörubíls er 125 kWh per 100 km þá ná þeir 100 km í viðbótardrægni með hálftíma hleðslu.

Allar gerðir rafknúinna ökutækja geta nýtt sér öll tengin og ræður þá afkastageta ökutækjanna hversu mikla orku þau ná að sækja. Nú þegar aka yfir 20 þúsund rafbílar um vegi landsins og stórir rafmagnsvörubílar hafa þegar hafið akstur en þetta er þó aðeins brot af þeim um 280 þúsund bílum sem eru á Íslandi sem þarf að skipta yfir í rafmagn.