Brimborg sækir um heimild til að reisa háhraða rafhleðslustöð

Brimborg hefur sótt um heimild til byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ að reisa háhraða rafhleðslustöð við Flugvelli 8 í Reykjanesbæ fyrir allar gerðir rafknúinna ökutækja. Um er að ræða háhraða stöð af nýrri og stærri gerð en áður hefur sést á Íslandi.

Undirbúningur og hönnun hefur staðið yfir undanfarið ár með umsókn um aðgengi að orku sem hefur verið samþykkt. Hönnun miðar að því að geta þjónað annars vegar atvinnubílum s.s. stærri flutningabílum, léttari sendibílum, leigubílum og smárútum og hins vegar einkabílum íbúa eða ferðamanna á eigin bílum og bílaleigubílum á leið í útleigu og skil frá erlendum og innlendum ferðamönnum.

Stöðin er fjöltengjastöð og getur orðið allt að 600 kW að stærð með hraðhleðslutengjum fyrir allt að 8 bíla í einu af öllum stærðum og gerðum sem nota nýjasta CCS2 staðalinn og verður hún opin öllum rafbílaeigendum með einföldu greiðsluappi eða greiðslulykli að vali viðskiptavina.

Hönnun stöðvarinnar hefur miðað að því að einfalda aðgengi að og frá og tryggja gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Upphituð plön verða við stöðina, góð lýsing og öryggismyndavélar auk þess sem hluti af raforkunni verður fengin með sólarorkuveri sem reist verður á þaki þjónustuhúss bílaleigu Brimborgar sem mun draga úr álagstoppum á dreifikerfið.

Ef leyfisferlið hjá Reykjanesbæ gengur vel má búast við að Brimborg geti opnað hraðhleðslustöðina í Reykjanesbæ sumarið 2023.

Það er forsenda þess að hægt sé að hefja umtalsverða útleigu rafknúinna bílaleigubíla og um leið gerir stöðin það kleift að orkuskipta öllum vöruflutningum milli höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar í rafmagn, hjálpar til við orkuskipti leigubíla og styður við orkuskipti íbúa á Suðurnesjum sem geta þá alltaf treyst á snögga hleðslu rafbíla sinna.

Brimborg hefur þegar hafið hönnun tveggja annarra sambærilegra háhraða, fjöltengja, hraðhleðslustöðva með tengimöguleikum fyrir 8 rafknúin ökutæki, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar utan höfuðborgarsvæðisins.