Bristol eftir 10 ára hlé

Bristol er gamalt breskt tegundarheiti yfir bíla, ekki síst vandaða sportbíla og kappakstursbíla millistríðsáranna. Kappaksturskappi að nafni Tony Crook eignaðist Bristol um miðja síðustu öld og átti merkið þar til núverandi eignarhaldsfélag eignaðist reyturnar árið 2011, fimm árum eftir að síðasti Bristol bíllinn var byggður undir stjórn Tonys Crook.

Hinn nýi Bristol sem nú birtist áratug eftir að sá næsti á undan leit dagsins ljós hefur gerðarheitið Bullet. Hann er tveggja sæta opinn sportbíll með löngu nefi og eru sætin vel aftan við miðju bílsins. Hann er hreint ekki nýtískulegur í útliti heldur minnir verulega á Cobra sportbílinn frá sjötta áratuginum.

Á millistríðsárunum voru sex strokka BMW vélar í Bristol bílunum en á árunum eftir síðari heimsstyrjöld voru þeir knúnir vélum frá Chrysler og sjálfir bílarnir voru úr áli. Svo er ekki lengur.  Hinn nýi Bristol Bullet er vissulega handbyggður en úr stáli og koltrefjaefnum og vélin er V8 bensínvél frá BMW.

Bristol bílarnir voru aldrei nein fjöldaframleiðsla og eintakafjöldi hvers upplags var frá nokkrum tugum upp í fáein hundruð. Það breytist ekki með hinum nýja Bullet sem byggður verður í samtals 70 eintökum á næsta ári og kostar hver bíll að meðaltali 250 þúsund pund. Það fer síðan eftir viðtökum og eftirspurn hvert framhaldið verður.