Brunar í VW Touran

The image “http://www.fib.is/myndir/Touranbrand.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Þann 12. júní sl. kom upp eldur í Volkswagen Touran bíl sem staddur var á E20 hraðbrautinni við Litlabeltisbrúna. Þann 16 júní kviknaði svo í öðrum samskonar bíl í miðborg Århus. Á síðasta ári komu upp eldar í nokkrum Touran bílum í Þýskalandi sem raktir voru til óþéttrar eldsneytisdælu í bílum með 1.9 TDI dísilvélar. Slíkir bílar og aðrar gerðir með samskonar vélum voru innkallaðir í kjölfarið og mun vera búið að skoða um 95% þeirra.
En brunarnir í Danmörku eru af öðrum toga: Bílarnir tveir sem þar brunnu á dögunum eru báðir með 2.0 TDI dísilvélar og sex gíra handskiptum gírkassa. Búið er að finna orsök eldsins í þeim en hún er rakin til ventils í kúplingshúsi að því segir í frétt á heimasíðu FDM, systurfélags FÍB í Danmörku. Bílarnir sem um ræðir eru með vélum sem hafa auðkennið AZV.
Í tilkynningu sem VW í Danmörku hefur sent til eigenda VW Touran 1.9 TDI með AZV vélum og sex gíra handskiptingu segir að um sé að ræða tæplega þúsund bíla. Óhætt sé að nota bílana en ef hætta sé á ferðum, geri hún óyggjandi boð á undan sér með skarkala, ískri og sargi þegar lausir hlutir fari á fleygiferð inni í kúplingshúsinu.