Brýnt að lögum verði breytt

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, segir það hafa aukist undanfarið að tryggingafélög sæki á nýja bílaeigendur vegna skulda fyrri eiganda. Óformlegt samkomulag hafi verið gert árið 2020 en það sé ekki virt lengur. Þetta kom fram í máli Runólfs í samtali við fréttastofu ríkissjónvarpsins.

Tyggingafélög geti ekki rukkað bílkaupendur fyrir skuldir fyrrum eiganda bílsins

Runólfur segir að brýnt að lögum verði breytt svo tryggingafélög geti ekki rukkað bílkaupendur fyrir skuldir fyrrum eiganda bílsins.

Samkvæmt lögum sem sett voru árið 2019 geta tryggingafélög sent skuldir fyrri eiganda á nýja eigendur, án þess að nýir eigendur hafi nokkuð vitað um að skuldir væru yfirhöfuð til staðar. Í kjölfar setningar laganna komu nokkur dæmi upp þar sem tryggingafélög rukkuðu bílkaupendur vegna skulda fyrri eigenda.

Runólfur segir ennfremur að þá hafi verið stofnað til samtals milli FÍB, Bílgreinasambandsins, Samtaka verslunar- og þjónustu og tryggingarfélaga um að þetta skyldi ekki gert. Í það minnsta ekki á meðan neytendur gætu ekki kannað hvort skuldir væru áhvílandi.

Þetta samkomulag varð til þess að lengi vel var ekkert um þessi tilvik. Nú hefur það breyst og Runólfur segist hafa upplýsingar um nokkur nýleg tilfelli þar sem verið er að innheimta kröfur fyrri eigenda.

„Og það er þvert á þetta heiðursmannasamkomulag sem var í gildi og þetta klingir alvarlegum viðvörunarbjöllum,“ segir Runólfur í samtalinu við RÚV.

Viðtalið í við Runólf má nálgast hér.